90% vilja ríkisrekna heilbrigðisþjónustu

Í nýrri rannsókn þar sem viðhorf Íslendinga til heilbrigðiskerfisins eru …
Í nýrri rannsókn þar sem viðhorf Íslendinga til heilbrigðiskerfisins eru skoðuð kemur m.a. fram að 89,4% landsmanna telja að ríkið eigi örugglega að vera ábyrgt fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heilbrigðismál virðast brenna meira á fólki en mörg önnur mál og Íslendingar vilja öflugt heilbrigðiskerfi sem er fjármagnað og rekið af ríkinu.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði, á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum, sem fram fór í Háskóla Íslands í dag.

Í erindi sínu kynnti hún niðurstöður rannsóknar sem var gerð meðal Íslendinga á vormánuðum og byggir á alþjóðlegu spurningalistakönnuninni (e. International Social Survey Programme). Í rannsókninni voru viðhorf Íslendinga til heilbrigðiskerfisins skoðuð með tilliti til ábyrgðar, rekstrarforms, eyðslu og árangurs.

„Í huga 90% landsmanna er enginn efi að ríkið eigi að bera ábyrgð,“ segir Sigrún. Meðal helstu niðurstaðna rannsóknarinnar eru að 89,4% svarenda telja að ríkið eigi örugglega að vera ábyrgt fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu. 10,1% telja það sennilegt og aðeins 0,3% telja það sennilega ekki eða örugglega ekki.

„Hér sjáum við mjög afdráttarlausar niðurstöður og það er frekar sjaldgæft fyrir félagsvísindafólk að sjá niðurstöður svona, að það sé ekki meiri munur í skoðunum,“ segir Sigrún.

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, kynnti niðurstöður nýrrar rannsóknar um …
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, kynnti niðurstöður nýrrar rannsóknar um viðhorf Íslendinga til heilbrigðiskerfisins á ráðstefnu í Háskóla Íslands í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Eyða á meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið

Tæplega 50% svarenda, eða 49,2%, telja að eyða eigi mun meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið og 44% telja að eyða eigi meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið en gert er nú. Þá telja 6,1% að eyða eigi jafn miklu og gert er nú. Aðeins 0,7% telja að eyða eigi minni eða mun minni fjármunum en gert er nú.

„Hér sjáum við aðeins meiri dreifingu, en samt ansi afdráttarlausa niðurstöðu,“ segir Sigrún. Sigrún vekur athygli að í rannsókninni voru þátttakendur spurðir hvort þeir væru tilbúnir að eyða mun meira þó að það hugsanlega þýði hækkun á sköttum. „Og helmingur þjóðarinnar segir já,“ segir Sigrún.

Stjórnvöld hafa ekki náð tilætluðum árangri

Þegar spurt var um árangur kom í ljós að flestir svarenda, 30,3%, telja að stjórnvöld hafi náð frekar litlum árangri í veitingu heilbrigðisþjónustu. 29,9% telja að stjórnvöld hafi hvorki náð miklum né litlum árangri og 24,5% telja að mjög lítill árangur hafi náðst. 14,2% svarenda telja að frekar miklum árangri hafi verið náð í heilbrigðismálum og 1,2% mjög miklum.

Konur vilja eyða meira í heilbrigðismál en karlar

Sigrún segir að þrátt fyrir að svarendur séu sammála um flesta þætti mega greina töluverðan mun á svarendum eftir þjóðfélagshópum.

„Það er greinilega eitthvað sérstakt varðandi aldurinn sem hefur áhrif,“ segir Sigrún. Við þá skoðun kemur meðal annars í ljós að eldra fólk er hlynntara ríkisábyrgð og ríkisrekstri í heilbrigðisþjónustu en yngra fólk.

Þá eru konur líklegri  en karlar til að vilja að meiri fjármunum sé eytt í heilbrigðiskerfið. Konur telja jafnframt að minni árangri hafi verið náð í heilbrigðismálum. Eldra fólk telur hins vegar frekar að árangur hafi náðst.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að tæplega 93% Íslendinga telja að …
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að tæplega 93% Íslendinga telja að eyða eigi mun meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið en gert er nú. mbl.is/Golli

Heilbrigðismál ofarlega í huga almennings

Í ljósi niðurstaðanna segir Sigrún að í samanburði við aðra málaflokka virðast heilbrigðismál brenna meira á fólki en önnur mál. 93% svarenda vilja eyða meiri fjármunum í heilbrigðismál. Næsti málaflokkur á eftir er lögregla og löggæsla (80%) og þar á eftir kemur menntun (74%).

„Heilbrigðisþjónustan stendur nokkuð út úr og það blasir við að Íslendingum er vel við velferðarkerfið. Hér getum við dregið þá niðurstöðu að þó að Íslendingar séu almennt hrifnir af því að stjórnvöld beri ábyrgð þá eru þeir sérstaklega hrifnir af því að ríkið beri ábyrgð á heilbrigðismálum,“ segir Sigrún.   

Að hennar mati gagnast niðurstöður rannsóknarinnar stefnumótendum sérstaklega þar sem skýr vilji þjóðarinnar kemur fram í niðurstöðunum. „En að sjálfsögðu er mikilvægt að hafa í huga að stefnumótun í heilbrigðismálum er mjög flókin og margir sem eiga aðild að því, þannig að ég myndi segja að rödd almennings ætti að vera ein röddin, og með þeim mikilvægari, en auðvitað eru margar aðrar eins og frá mismunandi heilbrigðisstéttum, stefnumótendum og fræðimönnum.“

Sigrún segir að með rannsókninni hafi verið bundnar vonir við að leiða mismunandi aðila saman og stofna til samtals milli akademíunnar, heilbrigðisstétta og stefnumótendenda.mbl.is