Bono verslaði í Frú Laugu

Bono verslaði í Frú Laugu í morgun.
Bono verslaði í Frú Laugu í morgun. AFP

Írska rokkstjarnan Bono er á Íslandi um þessar mundir en hann sást versla í Frú Laugu í morgun. Guðný Önnudóttir, annar eigandi Frú Laugu, staðfestir að Bono hafi heimsótt verslunina í morgun en segir þó að það hafi ekki verið fyrr en rokkarinn var á bak og burt að hún og afgreiðslukonan sem afgreiddi hann hefðu fengið það staðfest hver hafi verið þarna á ferð.

„Það kom hér maður inn með Íslendingi sem er gamall vinur afgreiðslukonunnar. Þau fara að spjalla og hún afgreiðir manninn með gulu gleraugun,“ segir Guðný. „Ég er að væflast í kringum hann, fer baka til til að rýna í hann, hvort þetta sé Bono og hvort ég ætti að fara og segja honum hvað hann væri ofboðslega líkur honum. Afgreiðslukonan var alveg grunlaus en henni þótti gleraugun kunnugleg.“

Bono keypti steinselju og baguette í versluninni að sögn Guðnýjar sem segir það hafa lífgað mikið upp á daginn að hafa fengið stórstjörnuna í heimsókn. „Við vorum eins og smástelpur eftir að hann fór,“ segir Guðný og hlær. „Við höfðum samband við manninn sem var með Bono og þetta reyndist vera hinn eini sanni,“ segir Guðný en Íslendingurinn kvaðst hafa verið að sýna Bono hverfið, Laugardalinn.

mbl.is