Búa við ótta og óöryggi

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær hafa áhyggjur af því að vera vísað úr landi og þær búa við lítið húsnæðisöryggi. Ein þeirra hefur þurft að flytja tíu sinnum á fimm árum með börn sín. Þær hafa lítið aðgengi að heilsugæslu og hafa upplifað að seint er gripið inn í veikindi. Þetta er meðal þess sem kom fram í  rannsókn og viðtölum við 11 konur sem hafa flúið hingað til lands og sótt um alþjóðlega vernd og kynnt var á Þjóðarspegli Háskóla Íslands.

Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir og Unnur Dís Skaptadóttir kynntu rannsóknina en hún er hluti af MA-ritgerð Elísabetar í mannfræði. Unnur Dís var leiðbeinandi hennar við skrif ritgerðarinnar.

Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir, MA í mannfræði, kynnti rannsókn sína á …
Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir, MA í mannfræði, kynnti rannsókn sína á Þjóðarspeglinum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson - Háskóli Íslands

Konurnar ellefu eru frá ólíkum löndum Mið-Austurlanda, Afríku og Austur-Evrópu og hafa flúið til Íslands af ólíkum ástæðum. Þátttakendur eru á aldrinum 18 ára til 65 ára. Þær hafa verið mislengi á Íslandi allt frá nokkrum mánuðum upp í 5 ár. Flestar þeirra eru einar hér á landi en tvær eru með maka. Fjórar konur eru með börn með sér og 3 áttu börn í upprunalandi sem ekki höfðu fylgt þeim á flóttanum.

Konurnar flúðu af ýmsum ástæðum. Stríð er er ein ástæða og aðrar flúðu ofbeldi – meðal annars vegna ofbeldis af hendi eiginmanns og fyrrverandi eiginmanns.

Fram kom í fyrirlestrinum að húsnæði þátttakenda var mismunandi og oft er aðbúnaður  mjög takmarkaður, staðsetning sumra var langt frá almenningssamgöngum. Nú þegar lítið er um húsnæði þá búa þær við lítið húsnæðisöryggi og hafa sumar þurft að flytja oft  á milli staða en viðtölin voru tekin í fyrra og í ár.

Fylgst með þeim í gegnum öryggismyndavélar

Flestar konurnar voru ekki sáttar við búsetuúrræði Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni og töluðu tvær konur um að þeim þætti mjög óþægilegt hversu mikið væri fylgst með fólki í gegnum öryggismyndavélar, bollastell var í læstum skápum og fólk þurfti að biðja um hvern einasta disk og bolla.

Þrisvar kom fram í máli kvennanna að þær höfðu reynt að biðja um læknishjálp en án árangurs. Ein kona var búin að vera með flensu í tvo mánuði en fékk ekki læknishjálp. Önnur var búin að kasta mikið upp og vera mjög veik í marga daga og bað nokkrum sinnum um læknishjálp. Henni var í marga daga sagt að hún þyrfti að bíða, hún féll í yfirlið og endaði á sjúkrahúsi. Önnur kona með lungnabólgu hafði einnig beðið um hjálp í búsetuúrræði Útlendingastofnunar en fékk ekki hjálp fyrr en Félagsþjónustan kom til þess að aðstoða hana við að flytja í annað húsnæði og sá hversu veik hún var.

Mundi eftir umfjöllun um fegurðardrottningar

Af konunum ellefu var Ísland fyrsta hælisumsóknarland hjá sex þeirra. Hending réði þó hjá þremur konum að þær kæmu hingað, tvær höfðu heyrt af landinu í gegnum frænku sína sem búsett er í Evrópu, þær höfðu aldrei séð landið á korti en ein þeirra mundi eftir umfjöllun um fegurðardrottningar á 9. áratugnum.

Útlendingastofnun annast málefni þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á …
Útlendingastofnun annast málefni þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórar komu hingað eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðrum löndum. Fjórar konur minntust á að þær hefðu heyrt að á Íslandi væri mikið kvenfrelsi, það hefði ráðið því að þær kæmu hingað. Þrjár töluðu um að landið væri öruggt og gott fyrir börn og einstæðar mæður.

Ein sagðist hafa lesið um Ísland í tímariti og séð glansmyndina af landinu, landið væri hreint og miklu skipti að það væri langt í burtu frá landinu sem hún dvaldi í.

Fyrirlestur þeirra Elísabetar og Unnar Dísar nefndist „Ég vil bara byrja líf mitt hér og byggja mig upp“.

Titillinn kemur frá konu sem er frá Afríkuríki sunnan Sahara en hún hafði dvalið lengi í öðru Evrópulandi á hrakhólum áður en hún kom til Íslands. Vegna kynþáttafordóma fékk hún ekki vinnu, menntun eða aðgang að samfélaginu.

Konurnar flúðu af ýmsum ástæðum. Stríð er er ein ástæða …
Konurnar flúðu af ýmsum ástæðum. Stríð er er ein ástæða og aðrar flúðu ofbeldi. Myndin er úr safni. AFP

Flestar konurnar höfðu áhyggjur af brottvísun og áhyggjurnar höfðu áhrif á líðan þeirra. Ein þeirra minntist á að þau hefðu beðið það lengi eftir svari að börnin myndu ekki lengur eftir landinu sem þau kæmu frá.

Þrjár höfðu áhyggjur af því að vera sendar frá Íslandi á forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar og ómögulegt hafi verið fyrir þær að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi sem fyrsta land. Ein kona lifði í stöðugum ótta við að fyrrverandi eiginmaður hennar fyndi hana á Íslandi eða í öðru landi þar sem hún hafði áður sótt um alþjóðlega vernd en fengið synjun. Maðurinn hennar komst á snoðir um að hún dveldi þar og því kom hún hingað.

Kona frá Balkanskaga:

„...þegar ég var að vinna í heimalandinu kom hann í vinnuna mína og starði...Hann á við mikið vandamál að stríða. Hann kom og allir sáu að hann var klikkaður og sagði við mig: „Ég drep þig og allan veitingastaðinn.“ Og alltaf í heimalandinu gat ég ekki verið í sömu vinnunni í langan tíma.“

Önnur kona frá Balkanskaga:

„Og annan son minn...hann lamdi og sonur minn datt niður og börnin mín grétu alltaf...því þau voru svo hrædd, á hverri nóttu var vandamál...kannski liðu einn eða tveir dagar, það er ekki gott líf, það er ekki gott að glíma við vandamál á hverjum degi, á hverju kvöldi, vandamál í mörg ár. Það er ekki gott.“

Þunglyndi og sjálfsvígshugsanir eða tilraunir komu upp í fjórum viðtölum og ein kona sagðist frekar deyja hér heldur en að fara aftur til upprunalandsins, sérstaklega ef börnin hennar gætu þá dvalið hér.

Huga þarf sérstaklega að þeim sem eru að flýja ofbeldi …
Huga þarf sérstaklega að þeim sem eru að flýja ofbeldi og glíma við sjálfsvígshugsanir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Nokkrar þeirra þrá að vinna  en hafa ekki fengið tækifæri til þess. Rannsóknir meðal flóttakarla sína að þetta er eitthvað sem þeir eru mjög uppteknir af. Þetta sáum við ekki á eins skýran hátt hjá þessum konum,  þær voru meira uppteknar af börnum og virðast ekki eiga eins erfitt með að þiggja aðstoð og karlar samkvæmt rannsóknum, að sögn Elísabetar.

Konurnar voru yfirleitt mjög þakklátar fyrir þá aðstoð sem þær hafa fengið og margar þeirra hafa jákvæða reynslu af þeirri þjónustu sem þær höfðu fengið hér, sérstaklega af hendi félagsráðgjafa og Félagsþjónustunnar.

Tvær höfðu upplifað skilningsleysi gagnvart því að þurfa að búa með karlmönnum sem þær þekktu ekki. Þeim var einfaldlega sagt að svona væri þetta á Íslandi –  þar sem karlar og konur væru jöfn. 

Kona frá Mið-Austurlöndum: „Við komum frá mjög hefðbundnu samfélagi þar sem mikið karlveldi ríkir, við erum svo hræddar við karlmenn vegna alls þess áreitis og þvingunaraðgerða sem stjórna konum í samfélaginu okkar...Alltaf þegar það eru karlmenn á svæðinu...eða þegar við hugsum um hvað ef...hvað ef við gleymum að læsa hurðinni eða hvað gerist ef við förum á klósettið og gleymum að læsa almennilega. Hvað ef þeir eru fullir og þeir eru ekki í sínu venjulega ástandi...“

Reynsla kvennanna af samskiptum við Útlendingastofnun er ekki eins góð og nefndu að minnsta kosti tvær að þeim þætti erfitt að talað væri við þær eins og þær lægju undir einhvers konar grun.

Konurnar voru þakklátar fyrir þá fjárhagsaðstoð sem þær fengu en í flestum tilfellum nægir hún þó ekki til að láta enda ná saman og getur það skapað kvíða. Sumar hafa þegið aðstoð frá öðrum eins og Rauða krossinum og mataraðstoð frá kirkju. Tvær söfnuðu flöskum til að afla sér aukatekna, segir Elísabet.

„Viðmiðin eru karlar rétt eins og skilgreining flóttamanns í Genfarsáttmála og Útlendingalögum er karllæg. En rannsóknin sýnir mikilvægi þess að hlusta á raddir kvenna og ekki gera lítið úr gerendahæfni þeirra. Sérstaklega þarf að huga að þeim sem hafa þurft að þola kynbundið ofbeldi og þeim sem upplifa depurð og sjálfsvígshugsanir.

Greiðari aðgang þarf að læknisþjónustu og taka þarf tillit til þeirra sem mæðra og til húsnæðisþarfa þar sem friðhelgi einkalífs er virt. Mikilvægt er að þjónustuaðilar við hælisleitendur hlusti og skilji þarfir kvenna út frá uppruna þeirra og lífsreynslu, að hunsa áhyggjur kvenna af því að búa með karlmönnum er ekki til eftirbreytni.

Stjórnvöld þurfa einnig að taka tillit til umsókna sem byggðar eru á ofsóknum og ofbeldi sem á sér stað í einkarými, þ.e. heimilisofbeldis og kynbundins ofbeldis. Þröng skilgreining Genfarsáttmála á flóttamanni á oft ekki við um lífsreynslu þessara kvenna sem samt hafa orðið fyrir ofsóknum.

Hnattvæddar ímyndir út á við um Ísland snúast gjarnan um landið sé jafnréttisparadís og hér ríki mikil velferð og kvenréttindi, rannsóknin leiðir hinsvegar í ljós að við eigum enn langt í land. Margar konur urðu fyrir vonbrigðum þegar þær áttuðu sig á því að hér ríkti ekki eins mikið jafnrétti og þær gerðu sér vonir um,“ sagði Elísabet að lokum í fyrirlestri sínum á málstofu á Þjóðarpúlsi HÍ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert