Hræðast ekki hótanir lögmanna

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. mbl.is/Styrmir Kári

Við erum bara pollrólegir yfir þessu og teljum okkur vera með fast land undir fótum og hræðumst ekkert svona ritskoðunar- eða þöggunartilburði,“ segir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í samtali við mbl.is.

Kjarnanum barst bréf frá lögmannsstofunni LOGOS fyrir hönd Glitnis HoldCo í morgun þar sem því var haldið fram að óhemilt sé að birta gögn eða upplýsingar úr gögnum sem Kjarninn notaði til að byggja fréttaskýringu sína „Að vera eða vera ekki innherji“ í gær.

„Þeir segja að birting frétta byggða á þessum gögn sé brot á lögum um fjármálafyrirtæki og vísa þar í 58. grein um bankaleynd eða þagnarskyldu sem við erum ósammála og eftir að hafa ráðfært okkur við lögmenn erum við á þeirri skoðun að þetta ákvæði eigi ekki við um blaðamenn,“ segir Þórður Snær.

Að hans mati eru tvær afar furðulegar kröfur settar fram í bréfinu. „Annars vegar að við greinum þeim frá því með tveggja sólarhringa fyrirvara ef við ætlum að birta einhverjar upplýsingar úr gögnunum,“ segir Þórður en hins vegar kom fram í bréfinu að Kjarninn veiti GlitniHoldCo upplýsingar um hvort von sé á frekari fréttum unnum upp úr gögnunum. 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík …
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media á fréttaflutning þeirra birta upp úr gögnum úr gamla Glitni. mbl.is/Eggert

Á að boða lögmenn á ritstjórnarfundi?

„Þeir vilja fá að vita hvað við ætlum að gera,“ segir Þórður og segir þessar hugmyndir fáránlegar:

„Þeir vilja fá sæti við borðið á ritstjórnarfundum, eðlilega,“ segir Þórður kaldhæðnislega. „Fá lögmennina og þá sem eru í forsvari fyrir Glitni til að sitja ritstjórnarfundi.

Spurður hvort hann telji að farið verði fram á lögbann á frekari fréttaflutningi úr gögnum, eins og farið var fram á gegn Stundinni og Reykjavík Media, segist Þórður ekki hafa hugmynd um það og aðgerðirnar sem beint sé gegn Kjarnanum séu öðruvísi.

Óttast ekkert

„Þeir segja í niðurlagi bréfsins að umbjóðandinn áskilji sér rétt til að grípa til allra lögmætra aðgerða vegna birtingar Kjarans á framangreindum trúnaðarupplýsingum. Ég skil þetta þannig að ef við verðum ekki við beiðni þeirra að upplýsa þá um hvað við ætlum að gera, sem við ætlum alls ekki að verða við, eða ef við birtum fleiri fréttir eða fréttaskýringar upp úr þessum gögnum, þá muni þeir mögulega grípa til einhverra aðgerða,“ segir Þórður Snær og bætir við að þær aðgerðir hljóti þá að verða af svipuðum toga og var beitt gegn Stundinni og Reykjavík Media.

Er þá verið að hóta ykkur?

„Það er mín upplifun á bréfinu og mér finnst erfitt að skilja niðurlag þess með öðrum hætti,“ segir Þórður Snær en hann segir ritstjórn Kjarnans ekki hafa neitt að óttast.

Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnir HoldCo, vildi ekkert tjá sig um málið þegar mbl.is óskaði viðbragða hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert