Sveigjanleiki hefur kosti og galla

Susan Rafik Hama er doktorsnemi við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Susan Rafik Hama er doktorsnemi við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Hari

Sveigjanleiki á vinnumarkaði getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á ungmenni sem hafa flúið hingað. Erfiður húsnæðismarkaður getur að sama skapi komi í veg fyrir að þau mennti sig. Mörg þeirra hætta námi til þess að veita aðstoð við framfærslu fjölskyldunnar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsóknum Susan Rafik Hama en hún er doktorsnemi á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn hennar fjallar um velgengni innflytjenda og flóttamanna í framhaldsskólum á Íslandi.

Susan ásamt skólasystkinum í Sulaymaniyah-háskólanum.
Susan ásamt skólasystkinum í Sulaymaniyah-háskólanum.

Þegar Susan flutti til Íslands árið 2000 var hún stundakennari við háskólann í Sulaymaniyah í Norður-Írak auk þess sem hún var í MA-námi við sama skóla. Á þessum tíma var ástandið ótryggt á þessu svæði og því sóttu hún og eiginmaður hennar, Salah Karim Mahmood, sem var þegar kominn með alþjóðlega vernd hér á landi, um fjölskyldusameiningu. Umsókn þeirra um fjölskyldusameiningu var samþykkt af íslenskum yfirvöldum og lauk hún því ekki MA-námi sínu í Írak. 

Þau eru Kúrdar frá Norður-Írak þar sem óeirðir hafa geisað áratugum saman. Því átökin hófust ekki með vígasamtökum Ríkis íslams heldur miklu fyrr. Hún segir að það hafi skipt máli að hún er úr vel efnaðri fjölskyldu og því gat hún haldið áfram námi þrátt fyrir kreppuna sem skall á Íslandi á árunum 2007-2008. 

Susan segir að þar sem hún kom hingað á eigin vegum, það er ekki sem kvótaflóttamaður á vegum íslenska ríkisins heldur sem hælisleitandi, hafi henni í raun verið kastað strax í djúpu laugina og fékk hún engan stuðning frá hinu opinbera.

Menntavísindasvið HÍ, Susan Rafik Hama hefur lokið fimm háskólagráðum og …
Menntavísindasvið HÍ, Susan Rafik Hama hefur lokið fimm háskólagráðum og sú sjötta er í farvatninu. mbl.is/Hari

Talar og skrifar fimm tungumál

Hún byrjaði strax í íslenskunámi og tók fimm áfanga hjá málaskólanum Mími. Susan, sem hefur síðan kennt íslensku á námskeiðum hjá Mími, segir að á námskeiðunum hafi hún fengið góðan grunn í íslensku þannig að hún gat bjargað sér. Miklu hafi skipt að hún talaði mjög góða ensku og það hafi hjálpað henni mikið við að fóta sig hér á landi. Auk þess talar Susan bæði arabísku og dálitla frönsku. Móðurmál hennar er kúrdíska þannig að hún talar og skrifar fimm tungumál.

Næstu ár eftir komuna til Íslands starfaði Susan við kennslu á flestum skólastigum auk ýmissa annarra starfa.

Susan og Salah Karim eiga tvö börn sem bæði eru fædd á Íslandi en þau eru 12 og 14 ára gömul. Eftir að hafa eignast þau fór Susan að velta fyrir sér að hefja nám að nýju. Hún segir að það hafi ekki síst verið fyrir mikla hvatningu frá íslenskum vinnufélögum hennar.

Íslendingasögurnar svipaður sagnaheimur og sögur Kúrda

„Ég sótti um meistaranám á menntavísindasviði og fékk inngöngu. En þar sem námið er á íslensku og námsgögnin á íslensku og ensku þá ákvað ég að mér veitti ekki af að bæta íslenskukunnáttuna þannig að ég skráði mig í BA-nám í íslensku fyrir útlendinga á sama tíma,“ segir Susan.

BA-ritgerðin nefnist Veröld Einars í tveimur samfélögum. Þjóðfélagsmyndin í Landi og sonum eftir Indriða G. Þorsteinsson og Mýrinni eftir Arnald Indriðason. Þar fjallar hún um nútímavæðinguna og áhrif hennar á bæði sveita- og bæjarsamfélagið um og eftir síðari heimsstyrjöld. Ritverkin tvö koma út á mismunandi tíma, Land og synir árið 1963 og Mýrin árið 2000, milli þeirra eru ólíkir ferlar sem tengjast breytingum á samfélagi, en Indriði og Arnaldur eru feðgar.

Susan segir að íslenskunámið við HÍ hafi verið gríðarlega skemmtilegt og þar hafi hún lært svo miklu meira en íslensku. Þar komst hún í kynni við íslenskar bókmenntir og það er ekki bara Arnaldur sem heillar hana með sögum sínum heldur einnig Íslendingasögurnar.  Að kynnast sagnaheimi Íslendinga sem svipi mjög við sagnaheim Kúrda. Ekki síst sögur eins og Njála.

Susan Rafik Hama fjallar um velgengni innflytjenda og flóttamanna í …
Susan Rafik Hama fjallar um velgengni innflytjenda og flóttamanna í framhaldsskólum á Íslandi í doktorsverkefni sínu. mbl.is/Hari

Nýta á menningarlegan bakgrunn ungmenna

MA-ritgerð hennar nefnist „Að brjótast úr viðjum vanans“ og fjallar um áhrif menningar og félagslegrar stöðu kvenna frá Mið-Austurlöndum á þátttöku þeirra í símenntun á Íslandi.

Þar varð í raun til grunnurinn að doktorsverkefni hennar nema núna rannsakar hún stöðu erlendra ungmenna í íslenskum framhaldsskólum.

Um þrjá rannsóknarhópa er að ræða. Sá fyrsti er í framhaldsskóla, annar hefur lokið framhaldsskólanámi Íslandi og farið í frekara nám. Þriðji hópurinn hefur hætt námi að loknum framhaldsskóla og er á vinnumarkaði.

Gagnasöfnun stendur enn yfir en að sögn Susan eru flestir viðmælendur á aldrinum 18 til 25 ára og koma úr nokkrum framhaldsskólum. Hún segir að skólayfirvöld megi ekki gleyma því, ekkert frekar en aðrir, að ungmenni sem hingað koma eru ekki með tóma vasana og nýta eigi þeirra menningarlega bakgrunn. Þetta geti skipt sköpum þegar kemur að framtíð þeirra hér á landi.

Flestir viðmælendur Susan eru á aldrinum 18 til 25 ára.
Flestir viðmælendur Susan eru á aldrinum 18 til 25 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mjög auðvelt er að fá vinnu á Íslandi og það hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar fyrir þessi ungmenni. Kosturinn er að þau fá vinnu og læra tungumálið betur á sama tíma og þau aðstoða fjölskylduna við að framfleyta sér. Gallinn er að þetta kemur í veg fyrir að þeir haldi áfram námi og ljúki námi á svipuðum tíma og jafnaldrar þeirra sem eru fæddir og uppaldir á Íslandi,“ segir Susan.

Hún segist hiklaust mæla með því að fólk taki íslensku fyrir útlendinga við Háskóla Íslands hafi það lokið framhaldsskólanámi. Hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar.

Getur tekið á að koma í samfélag þar sem viðmiðin eru önnur

Önnur rannsókn sem Susan vinnur að lýtur að börnum sem hingað koma sem flóttamenn. Sú rannsókn er unnin á fjölmenningarsviði menntavísindasviðs HÍ. Þar er verið að skoða hópa sem hafa komið hingað undanfarin ár. Það er börn á öllum skólastigum og foreldra þeirra.

„Ég annaðist mörg viðtalanna þar sem ég tala arabísku sem oft er þeirra móðurmál. Því þrátt fyrir að einhverjir tali ágæta íslensku þá er mun auðveldara að tjá sig um mál sem standa manni svo nærri á móðurmálinu,“ segir Susan.

Hún segir að það hafi komið í ljós að börn á flótta eigi oft auðveldara að fóta sig heldur en þeir sem eru eldri í nýju landi. Að vísu kemur stundum bakslag hjá börnum eftir að þau hætta að njóta stuðnings og nýjabrumið fer af þeim í huga skólafélaganna.

„Þau eru ekki öll læs og skrifandi og kannski ekki foreldrarnir heldur. Það getur tekið á að koma í samfélag þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt að allir séu skrifandi og læsir og þú mætir jafnvel fordómum vegna þess,“ segir Susan en reynsla af kennslu kemur að góðum notum við rannsóknirnar.

Sjötta háskólagráðan í vinnslu

„Ég er með fimm háskólagráður þegar ég legg saman námið mitt í heimalandinu og Íslandi því ég lauk námi í kennslufræði til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi þegar ég var búin með MA-námið 2012. Doktorsgráðan verður því sjötta háskólagráðan mín,“ segir Susan.

Susan hefur unnið fyrir Rauða krossinn við móttöku flóttahópa hér á landi og hefur kennt á námskeiðum á hans vegum þar sem hún kynnir íslenskt samfélag og er með fræðslu um menningu.

Ranghugmyndir um slæðuna

Að sögn Susan er mikilvægt að slík námskeið séu kynskipt því þá verður umræðan miklu frjálslegri. Þar skiptir ekki máli hvort konur eða karlar eiga í hlut. Hún segir að konur sem koma frá Mið-Austurlöndum mæti oft erfiðleikum þegar þær koma til Íslands. Ekki síst ef þær eru með slæðu (hijab).

„Sumir Íslendingar eru með ranghugmyndir um slæðuna og telja að hún sé kúgunartæki karla í garð kvenna. Jafnframt telja sumir að konur frá Mið-Austurlöndum hafi ekkert hlutverk og séu undir hælnum hjá karlinum. Það er líka rangt en hlutverkaskiptingin er kannski ekki nákvæmlega sú sama og er hér. Til að mynda er rekstur heimilisins oft á herðum konunnar og uppeldi barna á meðan karlinn vinnur meira á almennum vinnumarkaði. Uppeldi barnanna er hlutverk sem ekki á að vanvirða,“ segir Susan.

Áhrif menningar og félagslegrar stöðu kvenna frá Mið-Austurlöndum á þátttöku …
Áhrif menningar og félagslegrar stöðu kvenna frá Mið-Austurlöndum á þátttöku þeirra í símenntun á Íslandi er umfjöllunarefni Susan í MA-ritgerðinni. mbl.is/Hari

Verða að þekkja menningarheim fólksins sem hingað kemur

Þegar fólk kemur hingað til lands vegna þess að það hefur þurft að flýja heimalandið geta hlutverkin breyst. Stundum á betri veg en það er ekkert endilega gefið, segir Susan. Þeir sem taka á móti flóttafólki og leiðbeina þeim verða að vera meðvitaðir um þetta. Það er þekkja menninguna sem fólkið kemur úr og þá menningu sem tekur við og kunna að miðla henni.

Hún segir að flóttakonur mæti því miður ekki nógu vel á símenntunarnámskeið enda vanti oft hvatninguna. Þeir sem taka að sér að annast námskeið fyrir innflytjendur verði að gera sér grein fyrir því að einstaklingarnir eru ólíkir og ekki hægt að setja þá alla undir sama hatt, segir Susan.

Niðurstöður MA-rannsóknar hennar benda til þess að bæði menningarlegar og félagslegar aðstæður þessara kvenna standi í vegi fyrir þátttöku þeirra í símenntun á Íslandi. Þessar aðstæður myndast meðal annars vegna munar á íslenskri menningu og menningu upprunalandsins. Jafnframt leiða niðurstöður rannsóknarinnar í ljós að íslenskt samfélag tekur á móti innflytjendum á mismunandi hátt eftir uppruna og leiðum og forsendum komu þeirra til landsins.

Draga megi þá ályktun að til að hjálpa þessum konum og ef til vill fleiri konum að stíga skref fram á við og auðvelda þeim að taka þátt í símenntun þurfi íslenskt samfélag að veita þeim öllum jöfn tækifæri og sama aðgang að námskeiðum og flóttamenn og aðrir hælisleitendur fá. Það myndi jafnframt leiða til þess að þær yrðu samkeppnishæfari á vinnumarkaðnum en þær nú eru og hefðu aðgang að fjölbreyttari störfum í samfélaginu, segir í MA-ritgerð Susan.

Kúrdistan í Norður-Írak.
Kúrdistan í Norður-Írak. Ljósmynd - úr einkasafni

Ekki horfa á fólk sem fórnarlömb

Að sögn Susan gegna fjölmiðlar stóru hlutverki þegar kemur að stöðu flóttafólks hér á landi og það sé ákveðin tilhneiging að gera fólk að fórnarlömbum.

„Fórnarlömbin eru þeir sem enn eru á stríðshrjáðum svæðum. Þeir sem koma hingað sem kvótaflóttamenn hafa fengið tækifæri til lífs með því að koma hingað. Ef þú horfir á mig sem fórnarlamb þá fer ég að upplifa mig sem fórnarlamb. Ef þú horfir á mig sem nýjan borgara með hefur hlutverki að gegna í samfélaginu og margt nýtt fram að færa til samfélagsins þá upplifi ég sjálfa mig á þann hátt. Já ég er ekki lengur fórnarlamb heldur hef ég hlutverk í nýju samfélagi. Hlutverk sem ég vil sinna af alúð,“ segir Susan.

Spurð út í framtíðina segir Susan þau hjónin ekki vongóð um framtíð heimalandsins. Ekki síst svæðisins sem þau koma frá, Norður-Írak.

Búið við stríð í 22-24 ár 

„Undanfarna áratugi hafa margir ásælst náttúruauðæfi okkar. Allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hefur líf okkar einkennst af átökum og öryggisleysi. Lítil þjóð Kúrda sem hefur lent í átökum stórvelda,“ segir Susan

Er Saddam Hussein, fyrrverandi forseti Íraks, stóð fyrir ofsóknum og …
Er Saddam Hussein, fyrrverandi forseti Íraks, stóð fyrir ofsóknum og fjöldamorðum á Kúrdum á níunda áratug síðustu aldar, var íraska hernum skipað að hafa fullt samstarf í því efni við tyrkneska herforingja. AFP

„Ég hef búið við stríð í 22-24 ár og séð svo margt, sennilega of margt,“ segir hún. „En ef ástandið í mínu heimalandi lagast þá verð ég fyrsta manneskjan sem snýr heim aftur þrátt fyrir að okkur líði vel á Íslandi. Ættingjar mínir eru ekki búsettir á Íslandi og það skiptir miklu máli að börnin okkar fái að kynnast landinu sem þau eru frá þrátt fyrir að þau séu bæði fædd á Íslandi. Flestir flóttamenn vilja snúa aftur heim því það er ekki þeirra val að yfirgefa sitt heimalandi heldur neyðast þeir til þess,“ segir Susan.

Lítur á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem nýjan leik

Kúrdar eru á milli 25 til 35 milljónir og tungumál þeirra er kúrdíska, sem aftur skiptist í fjölmargar mállýskur. Flestir búa þeir á fjallendum svæðum í Tyrklandi, Írak, Sýrlandi, Íran og Armeníu.

Á síðustu áratugum hafa Kúrdar átt sinn þátt í átökum í Írak og hafa þeir gegnt stóru hlutverki í baráttunni gegn Ríki íslams.

Snemma á 20. öldinni kviknaði hugmyndin að sjálfstæðu ríki, oftast nefnt Kúrdistan, en það hefur enn ekki orðið að veruleika. 

Kúrdar í Norður-Írak hafa búið við ofbeldi og vopnaskak áratugum …
Kúrdar í Norður-Írak hafa búið við ofbeldi og vopnaskak áratugum saman. Ljósmynd úr einkasafni

Stjórnarher Íraks réðst um miðjan október í miðborg Kirkuk í Norður-Írak sem hafði verið á valdi hersveita Kúrda. Þúsundir íbúa flúðu úr borginni af ótta við blóðsúthellingar.

Yfirmenn hersveita Kúrda sögðu að árásin á Kirkuk jafngilti „stríðsyfirlýsingu gegn kúrdísku þjóðinni“. Ríkisstjórn Tyrklands fagnaði hins vegar árásinni og kvaðst vera tilbúin til að hefja samstarf við stjórnvöld í Írak til að berjast gegn liðsmönnum Verkamannaflokks Kúrdistans (PKK) sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

„Mér fannst þjóðaratkvæðagreiðslan um sjálfstæði Kúrdistan vera nýr leikur og hún fékk ekki stuðning frá þeim ríkjum sem skiptu Kúrdistan á milli sín eftir seinni heimsstyrjöldina. Íraska þjóðin er í raun ekki með leiðtoga og hefur ekki lengi verið með leiðtoga sem hugsar um hag heildarinnar, þjóðarinnar. Allir þeir sem hafa komið að stjórn Íraks hafa fyrst og fremst hugsað um eigin hag og sinna stuðningsmanna,“ segir Susan.

Rannsóknir Susan Rafik beinast að flóttafólki og hvernig því gengur …
Rannsóknir Susan Rafik beinast að flóttafólki og hvernig því gengur að fóta sig í nýjum aðstæðum. mbl.is/Hari

Kúrdar og ríkisstjórn Íraks hafa deilt um yfirráð yfir Kirkuk-héraði sem er ríkt af olíu. Talið er að Kúrdar séu í meirihluta í héraðinu en margir arabar og Túrkmenar búa í Kirkuk-borg.

Stjórn Íraks hefur neitað að viðurkenna þjóðaratkvæðagreiðslu íraskra Kúrda og segir að hún sé brot á stjórnarskrá landsins. Tyrkir eru einnig andvígir því að íraska Kúrdistan fái sjálfstæði þar sem þeir óttast að það verði til þess að Kúrdum í norðanverðu Sýrlandi takist að stofna sjálfstætt lýðveldi og kúrdíska þjóðarbrotið í Tyrklandi krefjist einnig aðskilnaðar.

Þar sem Kúrdarnir eru dreifðir um mörg ríki, þ.e. Tyrkland, Írak, Íran, Sýrland, Armeníu og Azerbajdzhan, hafa þeir ekki allir búið við sömu aðstæðurnar og því orðið fyrir ólíkum áhrifum. Menning þeirra hefur þess vegna þróast í margar ólíkar áttir og hún er langt frá því að vera heildstæð, að því er fram kemur í grein Drafnar Guðmundsdóttur mannfræðings í Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 2003.

Kúrdar á flótta.
Kúrdar á flótta. Úr einkasafni

Þetta hefur leitt til þess að ósjaldan eiga Kúrdar í til dæmis Írak auðveldara með að tengjast Írökum en öðrum Kúrdum í til dæmis Tyrklandi eða Íran og hefur það truflað þjóðernishreyfingar þeirra í að ná að snerta alla aðila hópsins í einu og skapa sameiginlega þjóðarvitund. Ekki nóg með það að Kúrdarnir séu svona sundurleitir sjálfir eins og raun ber vitni heldur hafa ríkin sem þeir eru dreifðir um alið á sundrungu þeirra til að koma enn frekar í veg fyrir að þeir geti verkað sem sterk heild. Írak og Íran, sem löngum hafa haft stirð samskipti sín á milli, vinna meira að segja saman til að bæla niður þjóðernisvakningu Kúrdanna.

Tyrkir hafa einnig lagt mikið upp úr því að kæfa þjóðerniskennd þeirra með því að banna tungumál þeirra, menningu og önnur kúrdísk einkenni eins og kúrdíska stjórnmálaflokka sem þeir telja grafa undan einingu tyrkneska ríkisins.

Staða Kúrda svipuð á tímum Saddams og Ríkis íslams

Susan segir að í valdatíð Saddam Hussein, forseta Íraks, hafi verið komið fram við Kúrda á svipaðan hátt og hjá vígasveitum Ríkis íslams nú þar sem markvisst var reynt að þurrka þá af yfirborði jarðar. Í kringum Mósúl hafa verið að finnast fjöldagrafir þar sem írösk yfirvöld, undir stjórn Saddam Hussein og stjórnmálaflokks hans Ba'ath, grófu Kúrda lifandi.

Talið er að Saddam Hussein hafi skipað fyrir um morð á 182.000 Kúrdum í Anfal-þjóðarmorðunum árið 1988. Meðal gagna sem lögð voru fram við réttarhöldin yfir Saddam í desember 2006 er fyrirskipun, sem send var 1. og 5. herfylkinu 21. ágúst 1988, en þar segir, að þau eigi að „byrja verkið á hörðum sérárásum í því skyni að valda skelfingu meðal fólks“. Með „sérárásum" var átt við efnavopnaárásir, sinnepsgas eða sarín.

Þjóðarmorð á Kúrdum voru staðreynd í valdatíða Ba'ath-flokksins í Írak.
Þjóðarmorð á Kúrdum voru staðreynd í valdatíða Ba'ath-flokksins í Írak. AFP

Vonandi verður skáldsaga að veruleika einn daginn

Susan segir að margt verði að breytast til þess að hún og fjölskylda hennar flytji aftur til heimalandsins. „Kannski flytjum við aldrei aftur heim og eftir því sem við búum lengur á Íslandi verður erfiðara að fara héðan. Einn af kennurunum mínum við Háskóla Íslands sagði að ég ætti að skrifa skáldsögu. Vonandi verður það að veruleika einhvern daginn,“ segir Susan en þess má geta að hún skrifaði meistararitgerðina og BA-ritgerðina á svipuðum tíma og báðar á íslensku.

Hersveitir Kúrda hafa tekið þátt í stríðinu gegn Ríki íslams.
Hersveitir Kúrda hafa tekið þátt í stríðinu gegn Ríki íslams. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert