Leiðindaveður þegar bíllinn fór í sjóinn

Bíllinn fór í sjóinn við höfnina þar sem farþegar fara …
Bíllinn fór í sjóinn við höfnina þar sem farþegar fara í Hríseyjarferjuna.

Lögreglan á Norðurlandi rannsakar enn tildrög banaslyssins á Árkógssandi en þrennt lést þegar bíll fór í sjóinn þar síðdegis á föstudag.

Gunnar Jóhannes Jóhannsson, rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi en til að mynda hefur verið rætt við fólk sem varð vitni að atvikinu.

Gunnar segir að aðstæður hafi verið slæmar á Árskógs­sandi á föstudaginn. „Þarna var leiðindaveður. Það var snjókoma, hálka og dimmt,“ segir Gunnar en talið er að fólkið hafi verið á leið í Hríseyjarferjuna Sævar.

Gunnar segir að búið sé að rannsaka vettvang, bifreiðin sem sökk sé til skoðunar, og, eins og áður kom fram, hafi verið rætt við vitni. „Krufning á hinum látnu mun fara fram í vikunni,“ segir Gunnar.

Eins og kom fram fyrr í dag fer fram minningarathöfn í Hrís­eyj­ar­kirkju í kvöld þar sem þeirra sem létust verður minnst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert