Vörubíll þveraði þjóðveginn

Frá vettvangi á Hellisheiði í dag þar sem ökumaður vörubíls …
Frá vettvangi á Hellisheiði í dag þar sem ökumaður vörubíls með tengivagn missti stjórn á bifreið sinni. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Suður­lands­veg­ur um Hell­is­heiði var lokaður um tíma í dag vegna umferðaróhapps sem þar varð um hádegi. 

Bílstjóri vörubíls með tengivagn missti stjórn á bifreið sinni á vesturleið í Hveradalsbrekku á Hellisheiði. Bíllinn lenti á vegriði og þveraði þjóðveginn. 

Frétt mbl.is: Suðurlandsvegur lokaður vegna óhapps

„Bílstjórinn missir stjórn á bifreiðinni af einhverjum orsökum á kafla þar sem er tvöföldun og víravegrið á milli,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við mbl.is.

Mikið högg kom á bílinn þegar hann fór út af veginum og kastaðist ökumaðurinn út um gluggann farþegamegin á bifreiðinni. „Bíllinn hendist svo áfram, án ökumanns, og lendir þvert á veginum, hoppar yfir víravegriðið og vagninn er ofan á tveimur neðstu vírunum og efsti vírinn er spenntur og heldur bílnum á veginum sem veldur því að hann þverar alveg veginn,“ segir Pétur.

Ökumaður vörubílsins hefur verið fluttur til aðhlynningar á slysadeild í Reykjavík. Ekki er vitað um líðan hans en ökumaðurinn var með meðvitund þegar hann var fluttur af slysstað.

Brunavarnir Árnessýslu ásamt Vegagerðinni hafa verið að störfum á vettvangi og er starfi slökkviliðs nú lokið. Verið er að flytja bílinn af vettvangi og Vegagerðin vinnur að því að lagfæra víravegriðið.

Búist er við að Hellisheiðin verði lokuð áfram í nokkra klukkutíma og er umferð beint um Þrengslaveg áfram. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka í Þrengslum og eru ökumenn beðnir að aka varlega. 

Uppfært klukkan 15:40: 

Vinna Vegagerðarinnar á vettvangi gekk hraðar en búist var við og samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi hefur Suðurlandsvegur um Hellisheiði verið opnaður að nýju og er greiðfær fyrir umferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert