„Harma að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu“

Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og prófessor á skurðsviði Landspítala, er í …
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir og prófessor á skurðsviði Landspítala, er í leyfi vegna málsins. Háskóli Íslands - Kristinn Ingvarsson

„Ég harma að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu í samskiptum við Karolinska sjúkrahúsið og Paolo Macchiarini sem ég lagði of mikið traust á,“ segir skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson, í yfirlýsingu sem hann hefur sent á fjölmiðla.

Tómas var í dag sendur í „nokkurra vikna“ leyfi frá störfum á Landspítalanum vegna plastbarkamálsins, svokallaða. Skýrsla um málið, unnin af óháðri rannsóknarnefnd Landspítala og Háskóla Íslands, var birt í gær.

Tómas segist hafa tekið þær ákvarðanir sem hann tók í tengslum við aðgerðina í góðri trú. Hann segist harma að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu í samskiptum við Karolinska sjúkrahúsið og ítalska lækninn Paolo Macchiarini en fram hefur komið að Ítalinn hafi blekkt Tómas til að breyta tilvísun sinni á þann veg að öll önnur meðferðarúrræði en umrædd skurðaðgerð væru fullreynd. „Ég var í afar flókinni stöðu gagnvart honum þar sem ég þurfti að að reiða mig á hann og teymi hans vegna flókinnar eftirmeðferðar sjúklingsins.“

Engin úrræði á Íslandi

Tómas segist hafa átt í miklum erfiðleikum að fá heildarmynd af því sem gerðist í Stokkhólmi í aðdraganda aðgerðarinnar en fram kemur í skýrslunni að sænska teymið, undir stjórn Macchiarini, hafi hætt að svara honum eftir að sjúklingurinn hafði verið innritaður á Karolinska. Tómas segir að rannsóknir sem gerðar hafi verið á Íslandi og í Svíþjóð hafi varpað ljósi á það sem betur hefði mátt fara „enda hef ég nú aðgang að upplýsingum sem áður voru mér óaðgengilegar.“

Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini.
Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini.

Hann bendir á að ekkert í niðurstöðum íslensku nefndarinnar bendi til þess að hann hafi vitað um, verið þátttakandi í eða skipulagt aðgerðina. Engin meðferðarúrræði hafi verið fyrir hendi á Íslandi og því hafi verið tekin ákvörðun um að senda sjúklinginn til Svíþjóðar „til frekari rannsókna, sérfræðiálits og mögulegrar meðferðar að þeirri ferð lokinni.“

Tómas segir í yfirlýsingunni að ferð sjúklingins hafi átt að taka þrjá daga en af heimferðinni hafi ekki orðið eins og til hafi verið stofnað. „Þegar ég skrifaði tilvísunin til Karolinska sjúkrahússins hafði plastbarkaaðgerð aldrei komið til tals þannig að ég gæti skilið þann valkost með skýrum hætti. Hins vegar hafði transplant aðgerð verið nefnd sem einn valkostur, en Macchiarini hafði einmitt öðlast frægð fyrir ígræðslu á barka úr látnum einstaklingum, svokölluðum nábarka.“

Fram kom í skýrslunni að Tómas hefði verið þátttakandi í aðgerðinni en að hann hafi ekki vitað að til stæði að þræða í sjúklinginn plastbarka fyrr en aðgerðin var hafin. Hlutverk Tómasar var að „opna“ sjúklinginn.

Taldi að farið væri að reglum

Tómas segist hafa heyrt af því þegar sjúklingurinn var farinn út, hvað til stóð. „Með þá vitneskju sem ég hef í dag harma ég að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu í samskiptum mínum við Macchiarini í aðdraganda þess að sjúklingnum var vísað til sérfræðilegs mats á Karolinska sjúkrahúsinu.“

Tómas segist hafa ranglega gengið út frá því að viðeigandi regluverki hefði verið fylgt eftir á þeim virtu stofnunum sem Karolinska sjúkrahúsið og Karolinska Institutet eru. „Ég gerði mér því enga grein fyrir á hversu veikum grunni ákvörðunin um aðgerðina var tekin.“

Hvað vísindagrein í Lancet áhrærir, sem Tómas var skráður meðhöfundur að, segist Tómas hafa gert margvíslegar tilraunir til að breyta orðalagi „þar sem öndunarvegi sjúklingsins var lýst sem nær eðlilegum. Þær voru virtar að vettugi og orðalagið stóð óbreytt. Íslenska nefndin gagnrýnir að ég hafi ekki við það hafnað frekari þátttöku í ritun greinarinnar og dregið nafn mitt af lista 28 meðhöfunda. Eftir á að hyggja hefði ég átt að gera það,“ skrifar Tómas í yfirlýsingunni.

Skýrsla um plastbarkamálið var kynnt í gær.
Skýrsla um plastbarkamálið var kynnt í gær. mbl.is/​Hari

Vildi láta fjarlægja nafn sitt

Hann segir að það ekki verið fyrr en eftir útkomu sænsku skýrslnanna að hann hafi fengið staðfest að tilskilin leyfi hefðu ekki verið til staðar. Í kjölfarið hafi hann óskað eftir því við ritstjóra The Lancet að nafn hans yrði fjarlægt af greininni. Hann hafi ekki haft réttar upplýsingar um vísindasiðfræðilegar forsendur aðgerðarinnar. „Lancet hafði áður orðið við ósk fjögurra höfunda greinarinnar og fjarlægt nöfn þeirra af henni. Ritstjórn blaðsins varð þó ekki við ósk minni og gaf engar haldbærar skýringar fyrir þeirri ákvörðun.“

Tómas segist vera í nokkurra vikna leyfi frá störfum á meðan Landspítali og Háskóli Íslands rýni í niðurstöður skýrslunnar. „Það er mikilvægt að allir hlutaðeigandi dragi lærdóm af þessu máli og sýni ég því skilning að tíma taki að yfirfara svo yfirgripsmikla skýrslu og vinna að nauðsynlegum úrbótum til að svona mál endurtaki sig aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert