„Maður skuldsetur sig ekki út úr fjárhagsvanda“

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Frumvarp að fjárhagsáætlun 2018 ber með sér að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna hefur engin tök á fjármálum Reykjavíkurborgar. Yfirstandandi góðæri hefur fært sveitarfélögum landsins gífurlega hækkun tekna, sem ætti að nota til að greiða niður skuldir og lækka álögur á almenning.“

Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem kynnt var í dag. Kjartan segir það vera áfellisdóm yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn að á toppi hagsveiflunnar skuli skuldir borgarinnar hækka verulega með hverju árinu sem líði. 

Frétt mbl.is: Reksturinn jákvæður upp á 3,4 milljarða

„Afar slæmt er að undir stjórn vinstri flokkanna hefur Reykjavíkurborg ekki notað góðærið til að greiða niður skuldir heldur hefur þvert á móti aukið þær. Og enn á að auka skuldirnar á næsta ári samkvæmt því frumvarpi að fjárhagsáætlun 2018 sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur kynnt í dag,“ segir Kjartan ennfremur.

Samkvæmt frumvarpinu muni langtímaskuldir A-hluta (aðalsjóðs og eignasjóðs) þannig aukast um 13% og langtímaskuldir samstæðu um 7,7% á næsta ári. Skuldir og skuldbindingar A-hluta muni hækka um 7,6% milli ára og nema um 108 milljörðum króna í lok árs 2018. Skuldir og skuldbindingar samstæðu muni hækka um 5,8% milli ára og nema um 299 milljörðum króna í lok árs 2018.

„Maður skuldsetur sig ekki út úr fjárhagsvanda og gildir þá einu hvort um er að ræða heimili, fyrirtæki eða sveitarfélag. Þetta er þó engu að síður stefna vinstri meirihlutans í Reykjavík í fjármálum borgarinnar, að fresta því að takast á við hinn óhjákvæmilega fjárhagsvanda, með enn aukinni skuldsetningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert