„Hver í andskotanum ertu?“

Macchiarini með plastbarka.
Macchiarini með plastbarka.

Ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini er maðurinn sem blekkti skurðlækninn Tómas Guðbjartsson til að breyta texta í tilvísun sjúklings, undir því yfirskini að þau skjöl væru ætluð siðanefnd. Raunveruleg ástæða var sú að hrinda úr vegi þeim hindrunum sem kæmu í veg fyrir að hægt væri að framkvæma á sjúklingnum aðgerð sem hvergi hafði verið reynd áður – og byggði á hugmyndum sem stóðu á vísindalegum brauðfótum.

Tómas er ekki eini maðurinn sem hefur mátt kenna á blekkingum Macchiarini en í fyrra birtist um manninn kostuleg grein í Vanity Fair um blekkingar sem hann beitti kærustu sína og unnustu til sex ára. Hann lifði tvöföldu lífi allan þann tíma og sannfærði unnustu sína, virtan bandarískan sjónvarpsmann, um ævintýraleg tengsl sín við helstu þjóðar- og trúarleiðtoga heims.

Ráðinn á vakt landlæknis

Fram kemur í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar, sem kynnt var í vikunni, að Macchiarini var ráðinn til Karolinska-sjúkrahússins í Svíþjóð þegar Birgir Jakobsson, nú landlæknir, var þar forstjóri. Í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar er afhjúpað að Macchiarini hafi verið undir mikilli pressu að hefja framsæknar skurðlækningar á sjúkrahúsinu, en hann hafði verið ráðinn í þeirri viðleitni að byggja upp miðstöð fyrir háþróaðar öndunarvegaskurðlækningar. „Umfangsmikið alþjóðlegt tengslanet hans átti að tryggja að miðstöðin yrði leiðandi á heimsvísu,“ segir í skýrslu Kjells Asplund „Fallet Macchiarini“ um ráðninguna.

Reiknað var með að ígræðsla endurmyndandi öndunarvega myndi hefjast þremur mánuðum eftir ráðningu Macchiarini en hann var ráðinn til sjúkrahússins 1. nóvember 2010. Þegar aðgerðin, sem íslenskir læknar flæktust í, var gerð á Andemariam Beyene voru sjö mánuðir liðnir frá ráðningunni.

Tómas Guðbjartsson fékk að kenna á blekkingum Macchiarini.
Tómas Guðbjartsson fékk að kenna á blekkingum Macchiarini. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Miklar væntingar voru gerðar til Macchiarini þrátt fyrir að viðvörunarbjöllur hafi hringt í ráðningarferlinu. Fram kemur í skýrslunni Fallet Macchiarini að hann hafi verið ráðinn á tímum þegar það var „öflugur rannsóknapólitískur stuðningur til að ráða framúrskarandi vísindamenn frá öðrum löndum.“ Í Macchiarini og starfsemi hans hafi sameinast  hugtök eins og „yfirþjóðlegar rannsóknir“, „endurnýjunarlæknisfræði“ , „stofnfrumur“, „nanótækni“, „alþjóðlega leiðandi“ og „stjörnuskurðlæknir“. „Það er auðskilið að allt í sambandi við ráðningu Macchiarini hafi virst lokkandi og framsækið.“

Miklar væntingar um skjótan árangur

Fram kemur í sömu skýrslu að Macchiarini hafi virst góður kostur. Hann hafi til að mynda verið á lista bandarískrar vefsíðu yfir 20 framsæknustu núlifandi skurðlækna heims. Barkaígræðslur Macchiarinis voru á lista Time Magazine yfir helstu læknisfræðilega sigra nútímans.

Væntingar þeirra fjórtán aðila sem skrifuðu undir ráðningarsamninginn hafi því verið mjög miklar. „Þegar fyrsta ígræðslan var gerð virtist eins og tíminn væri á þrotum – yfir hálft ár var liðið frá því að Macchiarini var ráðinn. Allar líkur eru á því að miklar væntingar um skjótan árangur af hálfu KI, deildarstjóra og Macchiarini sjálfs, hafi stuðlað að því að teknar voru skjótar ákvarðanir – alltof skjótar eins og síðar kom í ljós – um tvær fyrstu ígræðslurnar. Í þessu hraða ferli var öryggi sjúklinga vikið til hliðar,“ segir í íslenskri þýðingu rannsóknarnefndar upp úr sænsku skýrslunni.

Viðvörunarmerkin bæld niður

Fram kemur að frá þeim sjúkrahúsum sem Macchiarini hafið áður unnið, svo sem á Ítalíu, í Þýskalandi og á Spáni hafi borist þær upplýsingar að hann væri tæknilega fær skurðlæknir en að hann tæki ekki ábendingum um það hvers konar aðgerð ætti að gera á hverjum sjúklingi. Á því sviði sýndi hann dómgreindarleysi. Þá kom fram að samstarfsörðugleikar væru fyrir hendi, en að þeir væru viðráðanlegir.

Áður en hann var ráðinn var hann látinn framkvæma prófaðgerð og hrifust menn af færni hans í þeirri aðgerð. „Frá sjúkrahúsinu var ekki beðið um umsagnir um klínískan feril Macchiarini fyrr en mjög seint í ráðningarferlinu. Þau viðvörunarmerki sem þá bárust voru bæld niður. Svo virðist sem að þrýstingur frá KI [Karolina Institute, innsk. blm] og viss tímapressa hafi stuðlað að því að Macchiarini var ráðinn sérfræðingur þrátt fyrir að neikvæðar upplýsingar hefðu borist frá fyrrverandi samstarfsmönnum hans í klínísku starfi,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndar. Hann var því ráðinn þrátt fyrir mjög gagnrýnar umsagnir fyrri vinnuveitenda hans.

Í ljós kom að skurðlækningar Macchiarinis byggðu á afar veikum vísindalegum grunni og í raun má segja að þær hafi misfarist hrapalega. Hann framkvæmdi þrjár skurðaðgerðir á Karolinska-sjúkrahúsinu en var eftir það látinn fara.

Blekkingar og svik

Vanity Fair greindi frá því ítarlegri grein í fyrra að Macchiarini væri grunaður um margvísleg svik þegar að læknavísindum kemur en í þeirri grein voru eldri mál einnig tilgreind. Greinin fjallar hins vegar fyrst og fremst um hvernig hann sveik og prettaði ástkonu sína, Benitu Alexander, sem er virtur bandarískur sjónvarpsframleiðandi.

Andrea Bocelli og Veronica Berti. Andrea átti, samkvæmt Macchiarini, að …
Andrea Bocelli og Veronica Berti. Andrea átti, samkvæmt Macchiarini, að syngja í brúðkaupsveislu þeirra Benitu. Af þeirri veislu varð aldrei. AFP

Þau Benita og Macchiarini kynntust 2013 og stofnuðu til ástarsambands í tengslum við vinnslu á þættinum „A Leap of Faith“. Um var að ræða þátt á NBC sjónvarpsstöðinni en hann fjallaði um stórkostlegt framlag Macchiarini til læknavísinda.

Benita var á þeim tíma í ástarsambandi við mann en var að sögn óhamingjusöm, þegar Macchiarini varð á vegi hennar. Eiginmaður hennar fyrrverandi lá banalegu en hann var með krabbamein í heila en Benita lét í Vanity Fair hafa eftir sér að Macchiarini hafi verið einstaklega hjálplegur að vinna úr tilfinningum hennar og hann hafi hlustað á hana klukkutímum saman. Samband þeirra var í trássi við siðareglur NBC og héldu þau því leyndu fyrst um sinn.

Þátturinn tilnefndur til Emmy-verðlauna

Benita féll fyrir Macchiarini og trúði öllu sem hann sagði um afrek sín á sviði læknavísinda. Svo fór að hann bað hennar og sagðist hafa samið við sjálfan páfann um að gefa þau saman. Á meðal boðsgesta í brúðkaupsveislu þeirra yrðu forsetahjón Bandaríkjanna. Það sem Benita Alexander vissi ekki var að Macchiarini var giftur og átti tvö börn með eiginkonu sinni til 30 ára.

Macchiarini laug blákalt að Benitu um vinskap sinn við helstu þjóðar- og trúarleiðtoga heims og sagðist meðal annars vera læknir og persónulegur vinur páfans. Hann gerði sérstaklega vel við Benitu hana í gjöfum, mat og drykk og sá til þess að hana skorti ekkert.

Páfagarður hafði aldrei heyrt á Macchiarini minnst.
Páfagarður hafði aldrei heyrt á Macchiarini minnst. AFP

Þátturinn um Macchiarini fór í loftið þrátt fyrir að Benita hafi áður viðurkennt fyrir yfirmönnum sínum að hún ætti í ástarsambandi við viðfangsefni sitt. Sjónvarpsefnið þótti gott og var tilnefnt til Emmy-verðlauna.

Áður en Macchiarini bað hennar greindi hann Benitu frá því að hann hefði verið giftur og ætti börn með þeirri konu. Hann væri hins vegar fráskilinn. Hún trúlofaðist honum og þau fóru á fullt að undirbúa brúðkaup sitt. Þau ferðuðust saman um allan heim og Benita bauð fólki frá 17 löndum í brúðkaupsveisluna. Macchiarini sannfærði unnustu sína um að páfinn sjálfur myndi gefa þau saman og að vinátta þeirra væri þeirri staðreynd að þau væru bæði fráskilin yfirsterkari. Hann myndi leysa það mál gagnvart kaþólskum yfirvöldum á Ítalíu. Vagn páfans yrði brúðarbíllinn, hvorki meira né minna.

Þjóðarleiðtogar á meðal gesta

Macchiarini dró ekkert úr stóryrðunum. Hann sagði henni að forsetahjónin Michelle og Barack Obama yrðu á meðal boðsgesta sem og Vladimir Putin Rússlandsforseti og Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands. Hönnuðurinn Matthew Christopher myndi hanna á hana brúðarkjól og stórstjarnan Andrea Bochelli átti að syngja við athöfnina. Engu átti til að spara.

Macchiarini, sem starfaði á Karolinska-sjúkrahúsinu á þessum tíma, skýrði mikla fjarveru sína fyrir verðandi eiginkonu sinni á þann veg að helstu fyrirmenni heims þyrftu stöðugt á honum að halda. Í skýrslu rannsóknarnefndar kemur einnig fram að yfirmönnum hafi þótt skurðlæknirinn laus í taumi, hann væri sjaldnast í vinnunni. Það varð á endanum til þess að hann var látinn fara frá Karolinska.

Barack Obama átti að vera á meðal brúðkaupsgesta.
Barack Obama átti að vera á meðal brúðkaupsgesta. AFP

Þann 14. maí 2015, minna en mánuði fyrir brúðkaupið, og tveimur árum eftir að samband þeirra hófst, fóru að renna tvær grímur á hina verðandi brúður. Þá var henni bent á að dagskrá páfans rímaði ekki við yfirvofandi brúðkaup. Hann yrði staddur í annarri heimsálfu þegar athöfnin færi fram. Macchiarini reyndi að telja Benitu trú um að páfinn myndi breyta ferðalagi sínu og koma snemma heim – hann gæti ekki verið ábyrgur fyrir bókunarklúðri Páfagarðs. Hún þyrfti engar áhyggjur að hafa.

Eiginkona Bocelli hló

„Ég vildi ekki leggja tvo og tvo saman,“ sagði Benita við Vanity Fair þegar greinin birtist þar í febrúar í fyrra. Með hjálp einkaspæjara komst hún að því að flest það sem Macchiarini hafði sagt og gert var helber þvæla. Hann var enn giftur eiginkonu sinni til 30 ára og þau eru búsett í Barcelona. Eiginkona og umboðsmaður Andrea Bocelli, Veronica Berti, hló þegar erindið var borið upp á hana. Hún sagði söngvarann ekki syngja í brúðkaupum.

Allt reyndist á sömu bókina lært. Páfagarður hafði aldrei heyrt Macchiarini getið og þær upplýsingar fengust að umræddur skurðlæknir væri síður en svo læknir páfans. Fráleitt væri að hann hygðist gefa þau saman.

Karolinska-sjúkrahúsið lét Macchiarini róa 2013.
Karolinska-sjúkrahúsið lét Macchiarini róa 2013. AFP

Benita sagði í viðtalinu að Macchiarini væri ekki einhver „gaur“ sem hún hefði kynnst á bar. „Þetta var virtur og farsæll skurðlæknir sem við höfðum elt um allan heim í tengslum við heimildamyndina. Sú hugmynd að hann væri að ljúga þessu öllu var í raun súrrealísk. Sagan var of fáránleg til að geta verið lygi,“ sagði hún, aðspurð hvort hana hefði aldrei grunað manninn um græsku.

Hvað er einlega að þér?

Eftir að henni var orðið ljóst hvernig í pottinn var búið skrifaði hún Macchiarini bréf. „Ég mun aldrei skilja hvernig þú gast gert mér þetta. Til hamingju. Þú heillaðir mig – okkur öll – í la la landið,“ skrifaði Benita í tölvupóstinum. „Hver í andskotanum ertu og hvað er eiginlega að þér?“ spurði hún.

Einkaspæjarinn, fyrrverandi lögreglumaður til 15 ára, sagði við Vanity Fair að hann hefði aldrei séð annað eins. „Ég hef aldrei orðið vitni að öðrum eins svikum,“ sagði hann. „Sú staðreynd að hann gat haldið öllum þessum boltum á lofti, og lifað svona margskiptu lífi, er í raun mögnuð,“ sagði hann.

Í  grein Vanity Fair, sem hér má lesa, er einnig fjallað nokkuð ítarlega um það hvernig Macchiarini virðist hafa falsað ferilskrá sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert