Leyfi ekki veitt nema það samræmist skipulagi

Landmótun er enn í fullum gangi í Hverfisfljóti og er …
Landmótun er enn í fullum gangi í Hverfisfljóti og er jökulsárgljúfrið það yngsta í Evrópu og eitt það yngsta í heimi. Rofkraftarnir eru miklir í Lambhagafossum. mbl.is

Mismunandi sjónarhorn eru innan sveitastjórnar og skipulagsnefndar Skaftárhrepps á fyr­ir­hugaða 9,3 mega­vatta (MW) virkj­un­ar í Hverf­is­fljóti við Hnútu í Skaft­ár­hreppi. Þetta segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitastjóri Skaftárhrepps.

Frest­ur til at­huga­semda við frummats­skýrsl­u um virkjunaráformin er nú liðinn og mun fram­kvæmdaaðili nú vinna mats­skýrslu að teknu til­liti til athugasemda 38 aðila og umsagna níu stofnanna. Skipu­lags­stofn­un fær svo skýrsluna til meðferðar og gef­ur að lok­um álit sitt. Það verður svo sveit­ar­stjórn­ar Skaft­ár­hrepps að taka af­stöðu til út­gáfu fram­kvæmda­leyf­is.

Mbl.is greindi frá því í gær að frummatskýrsla á umhverfisáhrifum fyr­ir­hugaðrar virkj­un­ar sé að lang­mestu leyti byggð á nokk­urra ára gam­alli mats­skýrslu og um 10 ára göml­um gögn­um. Voru þannig all­ar nátt­úru­fræðirann­sókn­ir og at­hug­an­ir gerðar árið 2008 eða fyrr. 

Skýrsl­an var unn­in af Mann­viti fyr­ir fram­kvæmdaaðilann Ragn­ar Jóns­son sem jafn­framt er eig­andi jarðar­inn­ar Dals­höfða, þar sem fyrirhuguð virkjun á að rísa en áhrifa­svæði fram­kvæmd­anna er þó ekki bundið við Dals­höfða. 

Skilgreint sem iðnaðarsvæði

Sandra Brá segir stöðuna vera þá að samkvæmt aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem iðnaðarsvæði, en í nú­gild­andi aðal­skipu­lagi Skaft­ár­hrepps, sem staðfest var árið 2011, er gert ráð fyr­ir virkj­un Hverf­is­fljóts við Hnútu, allt að 40 MW að stærð.

„Á meðan að þeirri skilgreiningu er ekki breytt, þá vinnur sveitastjórn samkvæmt því. Það er okkar vinnuferli í þessu að vinna samkvæmt skipulagi,“ segir hún.

Sveitastjórnin hafi engar forsendur til að ákveða neitt á þessu stigi, en framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina verði heldur ekki veitt nema það sé í samræmi við skipulag.

 „Við gerum ekkert í bili. Nú er málið hjá Skipulagsstofnun sem er að óska eftir umsögnum og sem væntanlega klárar málið hjá sér,“ segir Sandra Brá. „Síðan þarf bara að koma í ljós hvernig umsókn um framkvæmdaleyfið mun líta út. Það kemur hins vegar fram í bókun sveitastjórnar að framkvæmdaleyfi verði ekki veitt nema á grundvelli aðalskipulagsins.“

Rennsli um Lambhagafoss sveiflast mikið á milli árstíða að því …
Rennsli um Lambhagafoss sveiflast mikið á milli árstíða að því er fram kemur í athugasemdum við frummatsskýrslu. mbl.is

Neikvætt fyrir ímynd sveitarfélagsins

Sveit­ar­stjórn­ Skaft­ár­hrepps þarf að taka af­stöðu til út­gáfu fram­kvæmda­leyf­is að lokinni meðferð Skipulagsstofnunnar, en ákvörðun sveitarstjórnar þarf m.a. að byggja á end­an­legri skýrslu um mat á um­hverf­isáhrif­um.

Sandra Brá segir vissulega vera mismunandi sýn á virkjunaráformin innan sveitastjórnar sem og hjá skipulagsnefnd, og bendir m.a. á sérbókun Z-listans, Sól­ar í Skaft­ár­hreppi, um málið.

Kemur m.a. fram í bókuninni að Z-listinn telji að áhrif­in af virkjuninni geta orðið tals­vert nei­kvæð fyr­ir ímynd sveit­ar­fé­lags­ins og sjálf­bæra upp­bygg­ingu ferðaþjón­ust­u í Skaftárhreppi, auk þess sem athugasemd er gerð við að mannvirki virkjunarinnar séu staðsett í eldhrauni sem hefur verndargildi samkvæmt náttúruverndarlögum. 

Spurð hvort að reiknað hafi verið út hverjar tekjur Skaftárhrepps yrðu ef af virkjunaráformum yrði, segir Sandra Brá það ekki hafa verið gert. Þær fælust þó væntanlega aðallega í fasteignagjöldum vegna húsakosts virkjunarinnar. 

Uppbygging í ferðaþjónustu

Þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við frummatsskýrsluna snúa m.a. að mati skýrsluhöfunda á ferðamennsku og áhrifum virkjunarinnar þar á. Sagði fram­kvæmdaaðil­inn  í sam­tali við mbl.is að ekki komi marg­ir ferðamenn að Lambhaga­foss­um í dag og að það sé sín skoðun að veg­ir vegna virkj­un­ar­inn­ar myndu geta opnað þeim leið á svæðið og stuðlað að fjölg­un. Aðrir hafa bent á að að sam­spil eld­virkni og annarra land­mót­andi þátta í lands­lag­inu geri lands­lagið við Hverf­is­fljót ein­stætt á heimsvísu þar sem óbyggðaupp­lif­un ferðalanga sé afar sterk.

Þá er því enn­frem­ur mót­mælt um­hverf­isáhrif virkj­un­ar yrðu „minni hátt­ar“ .

Sandra Brá segir þróunina í ferðaþjónustu hafa verið uppávið í Skaftárhreppi eins og annars staðar á landinu. „Ferðamönnum hefur fjölgað og það hefur verið aukin uppbygging í tengslum við ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.“ 

Margvíslegar skoðanir séu hins vegar innan sveitastjórnar á því hvort að menn hafi áhyggjur af að virkjunin komi til með að hafa neikvæð áhrif á upplifun og komu ferðamanna. „Ég held að ég geti ekki talað fyrir hönd allra sveitastjórnarmanna með því að lýsa einhverri einni skoðun á því,“ segir Sandra Brá og vill ekki gefa upp hver sín persónulega skoðun á málinu sé.

Hægur stígandi frá 2013

Í frummatsskýrslunni er ennfremur fullyrt að íbúum í Skaftárhreppi hafi farið fækkandi. Í at­huga­semd­um Z-list­ans við frummatsskýrsluna, seg­ir að þetta sé ekki rétt og að já­kvæðar breyt­ing­ar hafi orðið síðustu ár hvað íbúa­fjölda og at­vinnu­tæki­færi varðar.

Sandra Brá segir báða aðila hafa á réttu að standa hvað þetta varðar. „Þegar tölur eru skoðaðar svolítið aftur í tímann þá er það staðreynd að íbúum í Skaftárhreppi hefur fækkað. Það er engin ósannsögli í því,“ segir hún. „Hins vegar hefur íbúum farið fjölgandi aftur frá árinu 2013 þó að fjöldin sé ekki kominn í nánda nærri við þann íbúafjölda sem er verið að vísa í í skýrslunni, þessa 673. Við erum einhvers staðar í kringum 480-490 í dag,“ segir Sandra Brá. „Þannig að það hefur verið hægur stígandi frá 2013 en þá vorum við, að mig minnir, 452.“

Fjölgun íbúa í Skaftárhreppi tengist að einhverju leiti ferðamannaiðnaðinum að hennar sögn. „Uppbyggingin í ferðaþjónustu hefur haft mikil áhrif, það er ekki hægt að segja annað. En svo höfum við líka verið þeirrar gæfu aðnjótandi að ungt fólk, sem er með rætur í sveitarfélaginu, er að flytja heim aftur og er að taka við búum þar og slíkt og það er auðvitað mjög jákvætt líka,“ segir Sandra Brá. 

Mikið tjón eftir spennuhögg í vor

Einn þeirra kosta sem fram­kvæmdaaðil­inn listar upp í frummatsskýrslunni varðandi virkjunina er að hún muni bæta raf­orku­ör­yggi. Spurð hvort að raforkuöryggi sé ábótavant í Skaftárhreppi segir Sandra Brá:  

„Afhendingaöryggi raforku á landsvísu er ekki gott og það er eins hér. Ég veit svo sem ekki hvort við erum verr í sveit sett varðandi afhendingaöryggi en auðvitað er það alltaf kostur að geta tryggt það betur.“

Sú staða komi alveg upp við og við að raforkan bregðist. „Til dæmis núna í maí síðastliðnum urðu margir bæir hérna í sveitafélaginu fyrir mjög miklu tjóni þegar það kom spennuhögg á kerfi Landsnets,“ segir hún. „Þannig að þetta er alveg eitthvað sem gerist.“

Virkjanaáform séu engu að síður umdeild meðal íbúa í sveitarfélaginu. „Þetta er mikið hjartans mál fyrir marga, þannig að það er talsvert rætt. Það eru mjög skiptar skoðanir um virkjanir meðal íbúa hér rétt Miseins og annars staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert