Uppruninn hugsanlega í Kverkfjöllum

Vefmyndavélar í Kverkfjöllum.
Vefmyndavélar í Kverkfjöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Hugsanlegt er að uppruni aukinnar rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum sé í Kverkfjöllum, en ratsjármyndir frá í gærmorgun benda til þess að lítilsháttar breyting hafi orðið í vestanverðum Kverkfjöllum, á jarðhitasvæði í svokölluðu Gengissigi.

Í tilkynningu frá náttúruvársérfræðingum á Veðurstofu Íslands kemur fram að vísindamenn við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hafi borið myndirnar frá í gær við myndir frá 26. október og séð á þeim umræddar breytingar.

Auk þess fannst nokkuð sterk jarðhitalykt af ánni inni við Kverkfjallaskála á sunnudag. Að sögn umsjónarmanns skálans í  Kverkfjöllum hefur slíkt lykt fundist áður í tengslum við lítil vatnsskot undan jöklinum.

Vegna þessa telja vísindamenn hugsanlegt að uppruni aukinnar rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum sé í Kverkfjöllum. Fljúga átti yfir svæðið í dag, en vegna veðurs var því frestað í morgun. Segir í tilkynningunni að ekki verði hægt að gefa út endanlegar niðurstöður fyrr en þegar búið sé að fljúga yfir svæðið og meta það.

Á þessari stundu er rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum stöðug og rennsli ekki að aukast. Fólk er þó beðið um að sýna aðgát nálægt ánni vegna brennisteinslyktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert