Fólk fari gætilega við Jökulsá

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum, skammt frá Ásbyrgi.
Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum, skammt frá Ásbyrgi. mbl.is/Sigurður Bogi

Gert er ráð fyrir því að flogið verði yfir Kverkfjöll um hádegisbil en endanleg ákvörðun um það liggur ekki fyrir. Sterk jarðhitalykt fannst af Jökulsá á Fjöllum við Kverkfjallaskála á sunnudag en rafleiðni í ánni hefur aukist hratt að undanförnu.

Uppfært kl. 12:44: RÚV greinir frá því að fluginu hafi verið frestað til morguns vegna veðurs.

Í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands er haft eftir umsjónarmanni skálans í Kverkfjöllum að slík lykt hafi fundist áður í tengslum við lítil vatnsskot undan jöklinum. „Hugsanlegt er því að uppruni aukinnar rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum sé í Kverkfjöllum,“ segir þar.

Fram kemur á vef Veðurstofunnar að samanburður á ratsjármyndum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands bendi til lítils háttar breytinga í vestanverðum Kverkfjöllum, á jarðhitasvæði í svokölluðu Gengissigi.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur dregið úr rafleiðni í Jökulsá en hún er þó enn töluvert meiri en venjulega. „Á þessari stundu er rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum stöðug og rennsli ekki að aukast. Fólk er þó beðið um að sýna aðgát nálægt ánni vegna brennisteinslyktar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert