Jötunmenni dulinna afla

Baldvin Z leikstjóri, til vinstri, Erla Sveinsdóttir, seinni kona Reynis …
Baldvin Z leikstjóri, til vinstri, Erla Sveinsdóttir, seinni kona Reynis Leóssonar, og börn þeirra Reynis, Örn og Linda Björg, fyrir forsýninguna myndarinnar á Akureyri í gær. Almennar sýningar hefjast á morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Áhorfendur hljóta að velta því fyrir sér eftir að hafa séð myndina hvort sögupersónan hafi að öllu leyti verið af þessum heimi. Kraftarnir voru nánast yfirnáttúrulegir og spurningin er því sú hvort dulin öfl hafi búið með manninum,“ segir Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður.

Í fyrrakvöld var í Smárabíói í Kópavogi og Borgarbíói á Akureyri í gærkvöld forsýnd heimildarmyndin Reynir sterki – almennar sýningar á myndinni hefjast í kvikmyndahúsum á morgun, föstudag.

Lyfti björgum og braust úr hlekkjum

Í myndinni er sögð saga Reynis Arnar Leóssonar aflraunamanns, sem nafntogaður var á sínum tíma. Sem strákur heyrði Baldvin sögur af afrekum Reynis, sem lyfti björgum, sleit 6,1 tonns keðju og braust úr hlekkjum í fangaklefa og þaðan út. Alls setti Reynir þrjú heimsmet sem komust í bók Guinness og standa enn.

„Þegar ég fór út í kvikmyndagerð ákvað ég fljótt að gera mynd um Reyni. Ég vann heimildavinnuna og tók fyrstu viðtölin árið 2009 og eftir það en inn á milli komu tímar sem ég sinnti þessu lítið,“ segir Baldvin. „Nálgunin á efnið breyttist eftir því sem tímar liðu. Á fyrstu stigum ræddi ég meðal annars við lækna, sálfræðinga og presta um þessa ótrúlegu krafta Reynis og skýringar á þeim. Svo fræðandi nálgun gekk ekki upp þegar vinnsla myndarinnar hófst svo ég varð að fara aðra leið.“

Efni sem nýttist Baldvini var meðal annars heimildamyndin Sterkasti maður heims sem Reynir lét gera um sjálfan sig og kostaði talsverðu til. Þá var ýmislegt efni einnig tiltækt í safni RÚV. En mest munaði þó um viðtölin við til dæmis systkini Reynis, fyrrverandi eiginkonu hans og börn.

Reynir var ekki allra

Reynir braust úr keðjum, fangaklefa og höndum fílefldra laganna varða …
Reynir braust úr keðjum, fangaklefa og höndum fílefldra laganna varða í Keflavík.


„Fólk var yfirleitt tilbúið að ræða við mig, en sumir höfðu fyrirvara því Reynir var ekki allra,“ segir Baldvin. Hann telur að í æsku hafi Reynir um margt verið afskiptur og verið misþyrmt í sveit í Svarfaðardal. Það hafi sett varanlegt mark á drenginn, sem í sveitinni fékk þó einhverja vitrun – kannski guðlega – og áhrifin af henni vörðu alla tíð.

„Prestur sem ég talaði við sagði að biblíusögurnar greindu frá mörgum sem hefðu fundið guðleg áhrif eftir áföll í æsku. Sú var ef til vill raunin með Reyni, sem af mörgum var lítils metinn og sagður svikull og óheiðarlegur. Kjarninn er samt sá að Reynir var rótlaus maður, sem í dag hefði mögulega fengið greiningar um ofvirkni og athyglisbrest og hjálp samkvæmt því. En allar sögurnar sem viðmælendur segja eru frá þeim sjálfum, svo þetta er allt frá fyrstu hendi,“ segir Baldvin um Reyni, sem lengi bjó suður með sjó, starfaði þar sem vörubílstjóri og við járnsmíðar. Fékkst einnig við ýmsar uppfinningar svo sem á útblástursbúnaði fyrir bifreiðir, sem hann meðal annars kynnti forsvarsmönnum Volvo í Svíþjóð.

Skilaboð af miðilsfundi

„Í þessari vegferð hef ég fundið sterkt fyrir nærveru Reynis. Þegar ég hóf gerð myndarinnar hafði ég samband við Erlu Sveinsdóttur, seinni konu Reynis, sem af miðilsfundi kom með þau skilaboð frá honum að ég skyldi fá myndefnið sem til væri og gera myndina, en ekki aðrir þeir sem höfðu bankað upp á. Það ætti að bíða með málið og eftir unga manninum, sem var ég. Linda dóttir þeirra sagði mér líka af því að ákvörðun um ákveðið atriði í myndinni hefði verið föður sínum að skapi,“ segir Baldvin um samfylgd sína við jötunmennið Reyni sterka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert