SKÖMM er íslenskt SKAM

Listafélag Verzlunarskóla Íslands frumsýnir á morgun, föstudag þann 10. nóvember, glænýtt verk sem ber heitið SKÖMM.

Í verkinu er innblástur sóttur í norsku sjónvarpsþættina SKAM sem hafa notið gríðarlegra vinsælda bæði hér heima á Íslandi og í Noregi, en þeir fjalla um líf unglinga í nútímasamfélagi á afar opinskáan og raunsæjan hátt.

Í tilkynningu kemur fram að krakkarnir í Listafélaginu hafi unnið að gerð verksins síðastliðna tvo mánuði, en undirbúningur hefur staðið allt frá því í byrjun sumars með viðtölum við ungt fólk á aldrinum 16-20 ára.

Dominique Gyða Sigrúnardóttir leikstýrir leikhóp Listafélagsins í SKÖMM en þetta er í annað sinn sem hún gerir það, því í fyrra leikstýrði hún sýningunni The Breakfast Club sem skólinn setti upp og naut mikilla vinsælda.

Í verkinu SKÖMM hafa 10 leikarar búið til sína eigin sýningu frá grunni undir leiðsögn Dominique, með því sem kallað er „devised“ aðferð, eða samsköpunarleikhús, en vinnan við það er mjög krefjandi fyrir þá sem að því koma.

Þó verkið beri nafnið SKÖMM er verkið sjálfstætt og persónurnar nýjar og aðrar en þær sem eru í norsku þáttunum, enda nóg af spennandi og hæfileikaríkum unglingum til að sækja innblástur í hér á Íslandi.

Leikpersónur lifa sjálfstæðu lífi á Instagram

Hópurinn notar ýmsa miðla til að halda í hráan raunveruleikann sem einkennir einnig norsku þættina SKAM, til dæmis hefur hver persóna í verkinu sína eigin instagram-síðu. Persónurnar munu halda áfram að lifa sjálfstæðu lífi í gegnum instagram meðan á sýningum stendur og aldrei að vita hvað svo tekur við. Þau sem standa að SKÖMM eru metnaðarfull og ætla sér að slá í gegn, enda hefur sýningin nú þegar náð að vekja áhuga ekki minni manna en Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, en hann mætti á forsýningu verksins og gaf sér góðan tíma til að spjalla við leikara og leikstjóra eftir sýninguna. Hann lýsti hrifningu sinni með því að skrifa status um verkið á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagðist hafa skemmt sér vel og tengt við ýmsar senur verksins, sem rifjuðu upp fyrir honum feimni og vesen unglingsáranna.

Miðasala er hafin og hægt er að nálgast miða á vefsíðunni: nfvi.is/midasala. Vert er að taka fram að aðeins er sýnt út nóvember og að selt er á tvær sýningar í senn. Hægt er að kynna sér persónur verksins á instagram-síðu Listafélags Verzlunarskóla Íslands, listoverzlo.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert