Grunaður um að hafa nauðgað dætrum sínum

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir föður sem er grunaður um að hafa beitt  dætur sínar kynferðislegu ofbeldi árum saman. Talið er að maðurinn sé hættulegur umhverfi sínu. Maðurinn var dæmdur í fangelsi fyrir ítrekuð og gróf kynferðisbrot gagnvart þriðju systurinni árið 1991. 

Manninum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 29. nóvember en hann liggur undir sterkum grun um kynferðisbrot gagnvart tveimur ungum dætrum sínum sem varðað geta 16 ára fangelsi. Þá eru brotin þess eðlis að ætla má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms er lögreglan á Suðurlandi að rannsaka gróf kynferðisbrot mannsins gagnvart tveimur barnungum dætrum sínum.                         

Rannsókn lögreglu hófst í kjölfar bréfs sem félagsmálastjóri sveitarfélagsins, þar sem fjölskyldan býr, sendi til lögreglu í byrjun október þar sem óskað er eftir lögreglurannsókn.

Dóttir mannisns (nefnd A í skjölum málsins) greindi frá því við skýrslutöku hjá lögreglu 26. október að hún hafi flust til útlanda  tveggja ára gömul ásamt fjölskyldu sinni og búið þar til tíu eða ellefu ára aldurs er þau hafi flutt aftur til Íslands.

Þegar hún hafi verið fimm til sex ára hafi faðir hennar haft samfarir við hana a.m.k. þrisvar sinnum og hafi hann sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar í öll skiptin. Hafi þetta gerst er pabbi hennar hafi tekið hana eina með sér í ferðalag og dvalið á hótelherbergi í útlöndum.

Faðir hennar bað hana ítrekað um að segja ekki móður sinni frá þessu en eldri systir hennar (nefnd B) hafi sagt systur sinni frá því að hún hafi einnig orðið fyrir sambærilegu ofbeldi í samskonar ferðum. Stúlka A greindi nýverið nokkrum vinum sínum frá ofbeldinu sem hún hafði orðið fyrir af hálfu föður síns.

Faðir þeirra var handtekinn síðdegis 31. október og neitar hann sök. Hann staðfesti við lögreglu að hafa farið í þessar ferðir með A og gist með henni á hótelherberfi en ekki brotið gegn henni kynferðislega.

Að mati lögreglu er framburður stúlkunnar afar trúverðugur og ekkert fram komið sem gefi tilefni til að draga ásakanir hennar í efa, segir í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands.

Í kröfu lögreglustjórans um að manninum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi er því lýst að auk framangreinds máls sé til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara mál þar sem manninum er gefið að sök að hafa ítrekað brotið kynferðislega gegn næst elstu dóttur sinni (B).

Sú hafi greint frá því að pabbi hennar hafi fyrst brotið gegn henni þegar hún hafi verið 5-6 ára. Hafi verið um að ræða samfarir þannig að faðir hennar hafi stungið getnaðarlim sínum í leggöng hennar. Hafi þetta gerst oftar en einu sinni en hún myndi ekki hversu oft og hve gömul hún hefði þá verið. Hún kvað pabba sinn ekki hafa brotið gegn henni eftir að þau hafi flutt til Íslands árið 2012. Þá hafi pabbi hennar sagt henni eftir brotin að segja engum frá þessu og hann ætlaði ekki að gera henni þetta aftur. Faðirinn neitar líka sök í þessu máli.

Játaði að hafa beitt elstu dóttur sína ítrekuðu kynferðisofbeldi

Í greinargerð lögreglustjóra er einnig greint frá dómi sakadóms Austur-Skaftafellssýslu frá árinu 1991, en samkvæmt þeim dómi var faðirinn dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni þegar hún hafi verið 5-7 ára gömul en hann hafi alfarið játað sök fyrir dómi.

Að mati lögreglu er maðurinn í tveimur aðskildum málum undir sterkum rökstuddum grun um að hafa nauðgað tveimur dætrum sínum ítrekað þegar þær hafi verið barnungar. Auk þess liggi fyrir dómur frá árinu 1991 þar sem hann hafi verið sakfelldur fyrir gróf og ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni þegar hún hafi verið 5-6 ára. Sé um að ræða óheyrilega gróf og alvarleg brot gegn ungum börnum hans sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

Óforsvaranlegt að maðurinn gangi laus

Telji lögreglustjóri að umrædd brot séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sé óforsvaranlegt að maðurinn gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök.

Þá verði að líta til þess að ætluð háttsemi mannsins, sem lúti að grófum og ítrekuðum kynferðisbrotum sem spanni yfir langt tímabil gegn þremur dætrum, sýni ákveðið hegðunarmynstur eða kenndir sem maðurinn virðist ekki hafa stjórn á. Sé hann því að mati lögreglu hættulegur umhverfi sínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar.

Við meðferð málsins fyrir dómi upplýsti fulltrúi lögreglustjóra að maðurinn eigi einnig 9 ára dóttur og 3 ára dreng sem búi á heimili hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert