Þörf á fleiri virkjunum utan megin virkjanasvæðis

Land­mót­un er enn í full­um gangi í Hverf­is­fljóti og er …
Land­mót­un er enn í full­um gangi í Hverf­is­fljóti og er jök­uls­ár­gljúfrið það yngsta í Evr­ópu og eitt það yngsta í heimi. Rof­kraft­arn­ir eru mikl­ir í Lambhaga­foss­um. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Í frummatsskýrslu um virkj­un­ í Hverf­is­fljóti við Hnútu er hvergi minnst á aðrar virkj­ana­hug­mynd­ir í ánni, þó lagt hafi verið til að tvær virkj­ana­hug­mynd­ir fari í biðflokk. Slík samlegðaráhrif eru ástæða þess að Orkustofnun vill koma sem flestum virkjanakostum í gegnum ferli rammaáætlunar. Þetta segir Guðni Jóhannesson orkumálastjóri í samtali við mbl.is. 

Mbl.is greindi frá því á þriðjudag að frest­ur til at­huga­semda við frummats­skýrsl­u um fyrirhugaða 9,3 mega­vatta (MW) virkj­un­ í Hverf­is­fljóti við Hnútu í Skaft­ár­hreppi sé liðinn. Fram­kvæmdaaðili mun nú vinna mats­skýrslu að teknu til­liti til athugasemda 38 aðila og umsagna níu stofnanna, áður en Skipu­lags­stofn­un fær skýrsluna til meðferðar og gef­ur sitt álit.

Eng­in virkj­un er í Hverf­is­fljóti í dag en í nýjustu þingsályktunartillögu rammaáætlunar er lagt til að tvær stærri virkj­ana­hug­mynd­ir, Hverf­is­fljóts­virkj­un og Kald­baks­virkj­un, fari í biðflokk. Um sam­legðaráhrif þeirra og þess­ar­ar virkj­un­ar gæti verið að ræða en hvergi er minnst á aðrar virkj­ana­hug­mynd­ir í ánni í frummats­skýrsl­unni.

Skynsamlegra að búið sé að fjalla um virkjanakostina

„Á meðan að hlutir eru í biðflokki eða almennt óafgreiddir í rammaáætlun þá hafa þeir enga sérstaka stöðu, hvort sem um vernd eða nýtingu er að ræða,“ segir Guðni. „Tillögur hafa enga stjórnsýslulega þýðingu og það þýðir að menn hafa stundum gagnrýnt okkur fyrir að vera að taka virkjanakosti sem menn hafa ekki beinlínis verið að sýna áhuga á. Við höfum á móti sagt að þegar einstakir framkvæmdaaðilar eru farnir að sýna áhuga með sínum hætti að þá getur það kannski verið of seint.“

Guðni segir það sitt mat að hægt væri að taka umræðuna um stakar virkjanir með mun skynsamlegri hætti, ef áður væri búið að fjalla um mögulega virkjanakosti á svæðinu í rammaáætlun og taka ákvörðun um nýtingu eða vernd þeirra.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir smávirkjanaverkefni Orkustofnunar beinast að því …
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir smávirkjanaverkefni Orkustofnunar beinast að því að kanna kosti þess að setja upp minni virkjanir dreifðar um landið. Það gagnist bæði raforkuöryggi á svæðunum, sem og raforkuöryggi landsins.

Sam­kvæmt aðal­skipu­lagi Skaftárhrepps er svæðið þar sem virkjunin á að rísa skil­greint sem iðnaðarsvæði og var gert ráð fyrir virkj­un Hverf­is­fljóts við Hnútu, allt að 40 MW að stærð, þegar skipu­lagið var staðfest árið 2011.

Skortir mat á samfélagslegum áhrifum

Guðni ræðir ekki sérstaklega virkjunina við Hnútu og segir Orkustofnun ekki hafa rætt við Ragnar Jónsson eiganda jarðarinnar Dalshöfða þar sem virkjunin á að rísa. „Við reynum að gæta jafnræðis og safna sömu upplýsingum frá öllum aðilum. Við erum ekki í sérstakri hönnunarráðgjöf eða slíku, heldur látum við framkvæmdaaðilann um að kaupa hönnun og úrlausn tæknilegra mála,“ segir hann og kveður erfið úrlausnarefna einkenna allar virkjanir.

Hann svarar því heldur ekki hvort að virkjun Hverfisfljóts sé fýsilegur kostur, en segir það vera ákvörðun verkefnisstjórnar að setja hinar virkjanahugmyndirnar í biðflokk. Orkustofnun setji fram virkjanahugmyndir þegar hún telji sig komna með nægar upplýsingar um kostnað, hverju virkjunin geti skilað og hvernig hún muni í grófum dráttum líta út.

Verkefnastjórn rammaáætlunar hafi hins vegar beint athygli sinni mjög mikið að grasafræði og öðrum sambærilegum þáttum undanfarin ár, en minna á hinum samfélagslegu áhrifum. „Í síðustu rammaáætlun var þeirri vinnu [við mat á samfélagsáhrifum] ekkert lokið og þeir þættir því ekki teknir til,“ segir Guðni. Meðal slíkra þátta telji Orkustofnun áhrif á atvinnuuppbyggingu á svæðinu og raforkuuppbyggingu á landsvísu, sem og ábyrgð Íslendinga að framleiða sem mest af vistvænni orku.

Meðal þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við virkjun Hverfisfljóts …
Meðal þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við virkjun Hverfisfljóts er að rennsli um Lambhagafoss sveiflast mikið á milli árstíða. mbl.is

Aurburður hluti endanlegri hönnun

Meðal þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við frummatsskýrsluna er mikill aurburður í ánni og að rennsli Hverfisfljóts sé mjög misjafnt eftir árstíðum. Guðni segir hönnun ekki lokið á þessu stigi, þó vissulega hafi aurburður áhrif á kostnaðaráætlun virkjunar. „Allt sem varðar varnir gegn flóðum, aurburði, ísreki eða öðru slíku er bara hluti af endanlegri hönnun mannvirkisins. Það eru tæknileg vandamál sem að hugsanlegur virkjanaaðili verður bara að fást við og leysa,“ segir hann.

„Varðandi aurburð, þá er það þó yfirleitt þannig að ár hafa frekar hreinsast en versnað við að það hafi verið virkjað, eins og dæmin eru um úr Blöndu,“ bætir Guðni við. Of snemmt sé á þessu áætlanastigi að fara að leysa einstök tæknileg vandamál. 

Raforkuafhending verði öruggari og öflugri

Í frummatsskýrslu vegna virkjunar segir að framkvæmdaraðili telji að virkjun Hverfisfljóts stuðli „að því að raforkuafhending verði öruggari og öflugri á svæðisvísu komi til bilana í kerfinu á öðrum stöðum og stuðli framkvæmdin þannig að almannahag.“  Þá sé tilgangur fyrirhugaðra framkvæmda að framleiða raforku til sölu inn á almennan markað, auk þess sem virkjunin komi til með að auka orkuöryggi á svæðinu, landeigendum og samfélaginu til hagsbóta. „Með nýrri virkjun í Hverfisfljóti eykst orkuöryggi komi til náttúruhamfara,“ segir í skýrslunni.

Spurður hvort hann telji að virkjunin myndi auka raforkuöryggi á svæðinu komi til bilana í kerfinu , segir Guðni: „Þetta sem þarna er sagt gildir í sjálfu sér um allar minni virkjanir sem eru settar á stofn úti í héruðum og til hliðar við þessi megin vatnakerfi okkar eins og Þjórsá og jökulsár.“

Blönduvirkjun. Guðni segir Blöndu dæmi um að ár hafi frekar …
Blönduvirkjun. Guðni segir Blöndu dæmi um að ár hafi frekar hreinsast en versnað við að það hafi verið virkjað. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Orkustofnun hafi  áhyggjur af að virkjanir á Íslandi séu mikið til bundnar við tvö vatnsföll sem geti verið verulegt áhyggjuefni komi til náttúruhamfara. „Af þessum sökum er betra að dreifa framleiðslunni heldur en að hafa hana samþjappaða og það gildi hafa þessar minni virkjanir sem eru svolítið til hliðar.“

Full þörf sé á að fá fleiri virkjanir utan þessa megin virkjanasvæðis.“ Það er það sem við höfum lagt áherslu á og þess vegna erum við mjög súr yfir ákvörðunum um að útiloka virkjanir í Skjálfandafljóti og því svæði og í Skagafirði, vegna þess að þarna erum við með svæði sem gætu verið mjög góð fyrir raforkuöryggi á landsvísu. Það myndi raunar Hvalárvirkjun líka vera vegna þess að hún er langt utan við okkar mögulegu hamfarasvæði.“  

Orkustofnun sé með svo nefnt smávirkjanaverkefni í gangi, sem þegar sé komið inn á fjárlagatillögur. „Það beinist að því að kanna kosti þess að setja upp minni virkjanir dreifðar um landið og þar kemur bæði raforkuöryggi á svæðunum til, sem og raforkuöryggi landsins. Því við lítum á það sem jákvætt almennt að vera með dreifðari framleiðslu. Við höfum hins vegar ekki rýnt í það sérstaklega hvernig einstök virkjun komi út í því sambandi, en gerum ráð fyrir að ef sett er inn virkjun á eitt svæði þá auki það hið almenna raforkuöryggi.“

mb.is/Kristinn Garðarson

Raforkuöryggi víðtækara hugtak en bilanir 

Guðni vill ekki ræða raforkuöryggið út frá bilunum. Enda hafi hann ekki fengið miklar skýrslur um „blikkandi ljósaperur og raftæki sem eyðileggjast“ í Skaftárhreppi, líkt og Vestfirðingar og Akureyringar tali um. „Raforkuöryggi er hins vegar víðtækara hugtak og felur m.a. í sér að hægt sé að stunda eðlilega atvinnuuppbyggingu í héraðinu.“

Orkustofnun miði yfirleitt í slíku mati við það hvort að hægt sé að bæta við 10 MW inn á kerfið við núverandi aðstæður. „Það rímar mjög vel við 10 MW virkjun,“ segir Guðni. „Við vitum vel að menn eru að byggja upp hótel og annað á þessum slóðum.“ Hann sé hins vegar ekki með það á hreinu hvort að menn hafi þurft að grípa til dísilolíu til raforkunotkunar í Skaftárhreppi þar sem kerfið anni ekki notkuninni, eða hvort núverandi raforka dugi fyrir fjárfestingum eða uppbyggingu í héraðinu.

„Þannig að það má segja að raforkuöryggi er líka það að geta skaffað raforku til eðlilegrar uppbyggingar til hagvaxtar og vegna nýrra atvinnutækifæri og þar myndi ég segja að þetta augljóslega ætti við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert