Faðir dæmdur fyrir kynferðisbrot

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í tólf mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni árið 2015. Manninum var einnig gert að greiða annarri dóttur sinni miskabætur.

Fjölskyldan flutti til Íslands árið sem brotið var framið með aðstoð Rauða krossins. Barnavernd Reykjavíkur lét lögregluna vita af málinu það sama ár.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa káfað á kynfærum dóttur sinnar innanklæða í fleiri skipti og fyrir að hafa margsinnis horft á klámmyndir í viðurvist dætra sinna. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa fróað sér í stofunni á heimili þeirra í viðurvist annarrar dótturinnar. Móðir dætranna krafðist þriggja milljóna króna í miskabætur fyrir þær.

Í dómnum kemur fram að upphaf málsins má rekja til bréfs Barnaverndar Reykjavíkur um að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu myndi rannsaka meint brot mannsins gegn dætrum sínum. Barnaverndaryfirvöld og lögregla höfðu áður haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar, meðal annars vegna ætlaðs ofbeldis föðurins gegn dóttur sinni eftir að fjölskyldan flutti til landsins. Dóttirin fékk aðstoð vegna sjálfskaðandi hegðunar og andlegra erfiðleika. Í bréfinu kom einnig fram að foreldrar stelpnanna væru ekki lengur í sambúð. Mæðgurnar bjuggu saman en föðurnum var útvegað annað húsnæði.

Dæturnar gáfu skýrslu í Barnahúsi og ákveðið var að eldri dóttirin kæmi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Aldur dætranna kemur ekki fram í dómnum.

Sagði sakirnar upplognar

Maðurinn neitaði sök og sagði að móðir stelpnanna hefði haft áhrif á framburð þeirra. Þá sagðist hann aldrei hafa horft á klámmyndir, en hann greindi jafnframt frá því að stelpurnar hefðu orðið feimnar þegar fólk kysstist í bíómyndum en samkvæmt hans menningu væri talið skammarlegt að horfa á slíkt. Þá sagðist hann aldrei hafa stundað sjálfsfróun á meðan hann var í hjónabandi.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að sannað er að maðurinn hafi káfað á kynfærum annarrar dóttur sinnar. Hann var sýknaður af því að horfa á klámmyndir í viðurvist dætra sinna og að hafa fróað sér.

Maðurinn hlaut eins árs fangelsi og mun hann einnig greiða dótturinni sem hann braut gegn 800 þúsund krónur í miskabætur. Þá var honum gert að greiða málsvarnarlaun að hluta. Annar sakarkostnaður verður greiddur af ríkissjóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert