Fín færð fyrir vel útbúna bíla

Höfuðborgarbúar glöddust margir í gærkvöldi þegar fór að snjóa.
Höfuðborgarbúar glöddust margir í gærkvöldi þegar fór að snjóa. mbl.is/Árni Sæberg

Verið er að hreinsa snjó af götum og stígum í Reykjavík samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Snjóruðningstæki hafa verið að störfum frá því klukkan fjögur í morgun og ætti fólk ekki að lenda í vandræðum vegna færðar í morgunumferðinni. Bifreiðar á sumardekkjum eiga hins vegar ekki erindi út í umferðina, segir vaktstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Hann segir að hreinsunarstarfi verði að mestu lokið áður en fólk heldur af stað til vinnu og skóla en snjórinn er ekki mjög mikill í höfuðborginni. Samt heldur meiri en menn áttu von á.

Veðurstofan gerir ráð fyrir breytilegri átt 3-8 m/s og éljum í dag á höfuðborgarsvæðinu en að mestu þurru í kvöld. Norðaustlægari í nótt og léttir til, en líkur á éljum síðdegis á morgun og annað kvöld. Hiti um og undir frostmarki.

Veðurstofan varar við allhvassri eða hvassri norðvestanátt austast á landinu og hvessir enn meira eftir hádegi, víða stormur þar síðdegis og fram eftir kvöldi. Útlit er fyrir að snjókomubakki komi inn yfir Norðurland í nótt og á morgun.

Uppfært klukkan 7:25 – stormviðvörun

Vaxandi norðvestanátt um landið norðaustanvert og bakki með snjókomu er væntanlegur undir kvöld. Síðdegis verður stormur 18-23 m/s með skafrenningi frá Húsavík og austur með ströndinni og eins á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Héraði og á fjallvegum Austfjarða. Í Hamarsfirði og Berufirði er gert ráð fyrir hviðum allt að 35 m/s frá því um kl. 17 og fram á kvöld.   

Hálkublettir, snjóþekja og éljagangur er nokkuð víða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Hálka er á Hellisheiði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Hálkublettir eða hálka er allvíða á Suðurlandi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á vegum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Á Norðaustur- og Austurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja á vegum og sums staðar él eða skafrenningur. Mikið er autt með suðausturströndinni en þó eru hálkublettir og hálka á köflum.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðvestan 10-18 m/s A-til, en 18-25 síðdegis, hvassast við ströndina. Breytileg átt 3-8 m/s V-lands. Víða él, en bjartviðri SA-til. Snjókoma um landið N-vert seint í kvöld og nótt og lægir fyrir austan.
Norðlæg eða breytileg átt 3-10 á morgun og él N- og NA-lands, en bjart með köflum annars staðar. Líkur á éljum vestast síðdegis og annað kvöld. Hiti um og undir frostmarki.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, en 8-13 með A-ströndinni. Snjókoma um landið N-vert, en léttskýjað syðra. Útlit fyrir stöku él vestast um kvöldið. Frost 0 til 7 stig, en sums staðar frostlaust við ströndina. 

Á sunnudag:
Breytileg átt 3-8, víða léttskýjað og kalt í veðri. Vaxandi suðaustanátt V-lands um kvöldið með hlýnandi veðri og rigningu. 

Á mánudag:
Ákveðin sunnanátt í fyrstu með rigningu eða slyddu á láglendi, en snjókomu til fjalla. Suðvestlægari og skúrir eða slydduél þegar líður á daginn, fyrst vestan til. Hiti 1 til 5 stig. 

Á þriðjudag:
Suðvestanátt og slydduél eða él, en léttskýjað á NA- og A-landi. Hiti að 5 stigum SV-til, en annars víða vægt frost. 

Á miðvikudag:
Suðlæg átt með rigningu um landið S-vert og hlýnandi veður, en slydda eða snjókoma V-lands. Bjart og kalt í veðri NA-til. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir ákveðna norðanátt með snjókomu fyrir norðan, en slyddu eða rigningu A-lands. Að mestu þurrt sunnan heiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert