„Ég hætti ekki fyrr en ég finn þennan mann“

Bubbi Morthens tónlistarmaður.
Bubbi Morthens tónlistarmaður. mbl.is/Golli

„Ég er ekki hættur. Ég hætti ekki fyrr en ég finn þennan mann,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens en falskur reikningur á sam­skiptamiðlin­um Instagram í hans nafni er enn í notkun.

Í byrjun mánaðarins greindi Bubbi frá því að falskur reikningur und­ir nafn­inu Mort­hens­Bubbi væri í notkun. Þar væru myndir af honum og fjölskyldu hans notaðar í leyfisleysi. Sá eða þeir sem stóðu á bak við þann reikning sendu konum skilaboð í nafni Bubba.

Nýr falskur reikningur stofnaður daginn eftir

Daginn eftir að fjölmiðlar greindu frá falska reikningnum var honum lokað og nýr stofnaður, nú undir nafninu morthensbubbi0. Þar eru einnig myndir af Bubba en ekki þær sömu og voru notaðar á þeim fyrsta. Sama forsíðumynd af Bubba, nærmynd af honum með gleraugu, er á falska reikningnum og raunverulegum reikningi Bubba, sem heitir bubbimorthensofficial.  

Telur að um Íslending sé að ræða

„Það er greinilegt að þetta er Íslendingur,“ segir Bubbi og vísar til þess að notandinn hafi verið fljótur að loka reikningnum og stofna nýjan eftir umfjöllunina. Bubbi segir fátt sem hann geti gert en ekki er hægt að kæra þetta til Instagram nema stór hópur sendi inn kvartanir. Hins vegar hyggst hann leggja inn kæru til lögreglunnar eftir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert