Hestvík hlýtur góða dóma í Danmörku

Gerður Kristný rithöfundur.
Gerður Kristný rithöfundur. mbl.is/Golli

Jon Helt Haarder, gagnrýnandi danska dagblaðsins Jyllandsposten, lýsir Hestvík eftir Gerði Kristnýju sem blöndu af lágstemmdu hversdagsraunsæi með undirliggjandi hryllingi og brútal húmor. Hann gefur skáldsögunni fimm stjörnur af sex mögulegum.

„Sem lesanda fer manni fljótt að þykja vænt um þessa litlu perlu sem skáldsagan er. Ég gleypti hana í mig í tveimur munnbitum og langaði í raun strax að byrja aftur á byrjun. Það er þétt orka í því er virðist ómerkilegt hugarflæði Elínar og einfaldar setningarnar eru ljómandi vel þýddar hjá Erik Skyum-Nielsen. Það svífur undarleg landamærastemning yfir sumarhússvæðinu við vatnið, persónugalleríinu og framvindunni. Í hinu venjulega leynast alls kyns óvenjulegheit og allt er þetta skapað með aðferðum sem láta lítið yfir sér,“ skrifar Haarder.

Thomas Bredsdorff, gagnýnandi Politiken, lýsir skáldsögunni sem sálfræðilegri hryllingssögu þar sem litið er ofan í hyldýpi illskunnar eins og hún aðeins getur birst hjá sködduðum börnum. Hann gefur bókinni fjögur hjörtu af sex mögulegum. Í sögunni fer Elín með 12 ára son sinn upp í sumarbústað. Í næsta húsi hittir hún fyrir gamlan skólafélaga sem var harðstjóri bekkjarins, en Elín taglhnýtingur hans. Þegar börn þeirra beggja hverfa án skýringa verður fullorðna fólkið „eins og börn á ný, annað harðstjóri og hitt kúgað og sjálfbirgingslegt. Þetta er ekki falleg sjón, en bókmenntalega séð er þetta það fallegasta við þessa skáldsögu: krufningin á eðli eineltisins, kvalalosta hans, meðvirkni og kjarna illskunnar,“ skrifar Bredsdorff.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert