Lóðir seldar vegna uppbyggingar hjá GR

Frá golfvelli GR í Grafarholti.
Frá golfvelli GR í Grafarholti. mbl.is/Brynjar Gauti

Borgarráð hefur samþykkt viljayfirlýsingu á milli Golfklúbbs Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um mögulega uppbyggingu á aðstöðu klúbbsins í Grafarholti og á Korpúlfsstöðum.

Umhverfis- og skipulagssviði verður falið að hefja formlega deiliskipulagsvinnu byggða á fyrirliggjandi hugmyndum um að búa til lóðir í Grafarholti og á Korpúlfsstöðum.

Borgarstjóri skipaði starfshóp um svæði GR í október í fyrra. Í viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir því að skipuleggja atvinnulóðir annars vegar á Grafarholti við æfingasvæði Bása og hins vegar á Korpúlfsstöðum í framhaldi af Egilshöll.

Gert er ráð fyrir því að hluti söluandvirðis þessara lóða standi undir fyrirhugaðri uppbyggingu á aðstöðu klúbbsins.

„Reykjavíkurborg og GR eru sammála um að hluti virðisauka sem kann að fást vegna aukins byggingarmagns á svæðinu skuli renna til uppbyggingar fyrir GR. Gert er ráð fyrir að lagfæra golfvöll í Grafarvogi, byggja við og breyta æfingaaðstöðu í Básum og lagfæra aðra velli sem deiliskipulagsbreytingar kalla á. Verður GR eigandi þeirra bygginga sem kunna að verða reistar. Allur umframvirðisauki vegna deiliskipulagsbreytinga rennur til Reykjavíkurborgar,“ segir í viljayfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert