Reyna að fá börnin í Bláfjöll

Krakkar á skíðum í Bláfjöllum í mars síðastliðnum.
Krakkar á skíðum í Bláfjöllum í mars síðastliðnum. mbl.is/Styrmir Kári

Til stendur að opna byrjendalyfturnar töfrateppið og kaðalinn í Bláfjöllum í fyrramálið, auk slóðar fyrir skíðagöngumenn.

Ákvörðun um þetta verður tekin í fyrramálið. Þá yrðu lyfturnar opnar frá klukkan 11 til 15.

Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla, bætir við að slóðin fyrir skíðagöngumenn verði lögð með vélsleða til að fara ekki ofan í möl og grjót en venjan er að snjótroðari sé notaður til verksins.

Mikið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu en að sögn Einars er snjórinn lítill í brekkunum. „Við ætlum að reyna að fá litlu börnin, upprennandi snillingana, til að koma á morgun. Það er spáð frábæru verði og vonandi fá þau að njóta sín í einn dag,“ segir Einar.

Vinna hefur staðið yfir við að koma snjó í brekkurnar við þessar tvær lyftur síðustu daga.

Spurður út í næstu daga segir Einar að á mánudaginn sé spáð áframhaldandi snjókomu og hugsanlega haldi hún áfram alla vikuna. „Við byrjuðum að vera glaðir 3. nóvember þegar við sáum fyrsta snjóinn. Við erum verulega spenntir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert