Reyndi að lokka dreng með brjóstsykri

Drengurinn var á leið heim úr skólanum.
Drengurinn var á leið heim úr skólanum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í gær tilkynningu um að ökumaður bíls í Mosfellsbæ hefði reynt að lokka átta ára gamlan dreng til sín með því að bjóða honum brjóstsykur. Drengurinn var á gangi heim úr Lágafellsskóla um fjögurleytið síðdegis þegar atvikið átti sér stað.

Móðir drengsins deildi upplýsingum um atvikið á facebooksíðu sinni, hvatti fólk til að hafa augun opin og ræða við börn sín. Margir hafa deilt færslu móðurinnar.

Sonur hennar hafði orðið viðskila við tvo vini sína og var stutt frá heimili sínu þegar maðurinn gaf sig á tal við hann. Maðurinn talaði bæði ensku og íslensku við drenginn, sem brást rétt við aðstæðum. Hann þáði ekki sælgætið heldur hljóp beint heim til sín og sagði frá því sem hafði gerst.

Móðirin segir soninn hafa gefið eftirfarandi lýsingu á manninum:

Bíll: Rauður, ekki jeppi.
Ökumaður: Maður, örugglega meira en 50 ára.
Hárlitur: Dökkur og hvítur (farið að grána).
Holdafar: Ekki feitur, ekki mjór – bara venjulegur.
Annað: Með yfirvaraskegg og húfu.
Tungumál: Enska og bjöguð íslenska – hann átti erfitt með að skilja hann.

Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við mbl.is að málið hafi komið inn á borð lögreglustöðvarinnar við Vínlandsleið í Grafarholti síðdegis í gær og það sé litið alvarlegum augum.

„Við tökum allar svona tilkynningar mjög alvarlega og reynum að vinna út frá þeim upplýsingum sem við höfum. Oft eru þó takmarkaðar upplýsingar sem liggja fyrir.“ Valgarður segir að ekki hafi fleiri sambærilegar tilkynningar borist frá því í gær, en lögregla hefur ekki haft uppi á manninum.

Valgarður segir að í einhverjum tilfellum geti það skapað ótta þegar upplýsingum sem þessum er dreift á samfélagsmiðlum, en mikilvægt sé að brýna fyrir börnum að gefa sig ekki á tal við fólk sem reynir að bjóða þeim eitthvað, og koma sér strax í burtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert