Seldu allt kjötið á tveimur dögum

Jónas Þór í kjötvinnslunni á Laugum í Reykjadal.
Jónas Þór í kjötvinnslunni á Laugum í Reykjadal. Ljósmynd/Aðsend

„Síminn stoppaði ekki í tvo daga og ég hafði ekki undan að svara,“ segir Salbjörg Matthíasdóttir, sauðfjárbóndi í Árdal í Kelduhverfi. Vegna lækkandi afurðaverðs greip hún til þess ráðs að vinna kjötið sjálf og selja, líkt og mbl.is greindi frá í haust.

Salan gekk vonum framar og Salbjörg segir að hún hefði getað selt miklu meira kjöt. „Þetta seldist upp á tveimur dögum eftir að fréttin birtist á mbl,“ segir hún. Um var að ræða tæplega 130 lömb. 641.is greindi fyrst frá.

Salbjörg og eiginmaður hennar, Jónas Þór Viðarsson, eru bæði í annarri vinnu samhliða sauðfjárbúskapnum. Þau munu hafa 157 ær í húsi í vetur, sem er nokkur aukning frá síðasta vetri.

Þau hjónin keyrðu féð í nokkrum ferðum til Norðlenska þar sem því var slátrað. Þaðan fóru þau með skrokkana í Matarskemmuna á Laugum, þar sem leigja má góða aðstöðu til kjötvinnslu. Hún segir að þau hafi ýmist grófskorið kjötið eða sagað í sneiðar, allt eftir óskum kaupenda. Nokkra skrokka hafi þau úrbeinað.

Hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson í Árdal hefðu …
Hjónin Salbjörg Matthíasdóttir og Jónas Þór Viðarsson í Árdal hefðu getað selt miklu meira lambakjöt. Ljósmynd/Aðsend

Salbjörg segir að þegar allt sé reiknað út hafi þau fengið um tvöfalt hærra verð fyrir kjötið en þau hefðu fengið frá Norðlenska. „Það er ekki alveg komið í ljós með alveg allan kostnað en við erum miklu betur stödd en ef við hefðum lagt þetta inn. Ég gat borgað áburðarreikninginn strax eftir fyrstu sendinguna,“ segir hún glöð í bragði. Salbjörg segist hafa þurft að vísa allnokkrum kaupendum frá.

Hún segir að þau hjónin hafi helst verið gagnrýnd af öðrum bændum fyrir lágt verð en það verði endurmetið að ári. Hún mælir með því að bændur, sem kost hafi á, fari þessa leið við að selja kjötið en ítrekar að um sé að ræða mikla vinnu. „Ég skil alveg að það geti ekki allir staðið í þessu. En þetta er bæði skemmtilegt og svo færðu miklu meira fyrir kjötið,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert