„Sennilega alin upp af fólki“

Heiðagæsin var hin spakasta þegar hún varð á vegi blaðamanns …
Heiðagæsin var hin spakasta þegar hún varð á vegi blaðamanns við Reykjavíkurtjörn í morgun. mbl.is/Baldur Guðmundsson

„Hún heldur sennilega að hún sé grágæs,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndarfélags Íslands. Heiðagæs heldur til við Reykjavíkurtjörn ásamt hópi grágæsa. Gæsin er brúnlei, smærri en grágæs og með bleikan gogg og fætur.

Fréttir hafa verið sagðar af stakri heiðagæs við Tjörnina frá árinu 2014 en Jóhann Óli er þess fullviss að um sama fugl sé að ræða. Gæsin sé spakari en grágæsirnar. „Hún er það spök að hún er sennilega alin upp af fólki,“ segir hann. Dæmi séu um að fólk hafi alið gæsir í grennd og líklega sé um slíkan fugl að ræða.

Heiðagæsir halda sig alla jafna til heiða – eins og heiti þeirra ber með sér – og hafa ekki vetursetu á Íslandi. Lítill hluti grágæsastofnsins heldur hins vegar til á landinu yfir vetrartímann – og hefur gert um árabil – eins og borgarbúar hafa vafalaust veitt athygli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert