„Þarf ekki að koma mjög á óvart“

„Það er alveg viðbúið að þetta haldi áfram á morgun, það verði einhver él þá. Síðan á laugardaginn verða kannski einhver él síðdegis og um kvöldið,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurð um framhaldið á snjókomunni á höfuðborgarsvæðinu en segja má að fyrsti almennilegi snjórinn sé kominn.

„Hins vegar hefur þegar snjóað mikið víða á landsbyggðinni og þá ekki síst fyrir norðan og austan. Hins vegar fer að hlýna á sunnudagskvöldið og aðfaranótt mánudagins og þá breytist úrkoman í rigningu á suðvesturhorninu,“ segir Birta. Síðan fer aftur kólnandi eftir helgina. „Þetta þarf ekki að koma mjög á óvart. það er nú kominn nóvember.“

Von er á snjókomu fyrir norðan aðfaranótt laugardagsins og fram á laugardaginn. „Það gætu alveg orðið upp undir 30 sentimetrar á einhverjum stöðum. Þannig að fólk sem er að ferðast á milli landshluta um helgina eða fara á rjúpu eða annað slíkt ætti að fylgjast með veðurspánni. Það er bara kominn vetur og fyrir vikið nauðsynlegt að huga að þessu.“

mbl.is/Jón Pétur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert