Þekktar eldstöðvar eru nú að þenjast út og undirbúa sig

Hraunstraumurinn kom upp á yfirborðið um langan veg frá Bárðarbungu. …
Hraunstraumurinn kom upp á yfirborðið um langan veg frá Bárðarbungu. Eldgosið var tiltölulega stórt og rann mikið hraun. mbl.is/RAX

Blikur eru á lofti varðandi nokkrar þekktar eldstöðvar landsins, að mati Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Ekki er hægt að segja fyrir um það með löngum fyrirvara hvort, hvar eða hvenær gýs næst. Eldstöðvarnar eru betur vaktaðar nú en nokkru sinni fyrr og stöðugt er fylgst með því hvort þær bæra á sér og sýna merki um aðsteðjandi eldgos. Í sumum eldstöðvanna er nú í gangi atburðarás sem allt eins getur endað með eldgosi í fyllingu tímans.

 Þensla í þekktum eldstöðvum

„Það hefur verið þensla í Bárðarbungu og Grímsvötnum frá síðustu gosum í báðum eldstöðvunum,“ sagði Páll. Mælanleg þensla byrjaði bæði í Grímsvötnum og Bárðarbungu strax eftir eldgosin. Þessar eldstöðvar undir Vatnajökli eru því báðar í þeim ham að hlaða sig eftir síðustu eldgos, að sögn Páls. Þær eru að öllum líkindum að búa sig undir næsta kafla í umbrotunum. Eldgosið í Holuhrauni, sem kom úr Bárðarbungueldstöðinni 2014-2015, var tiltölulega stórt. Sama má segja um Grímsvatnagosið 2011 sem var óvenju stórt og það stærsta sem lengi hefur sést frá eldstöðinni.

Hekla, nafntogaðasta eldfjall Íslands í aldanna rás, hefur líka þanist út frá því hún gaus árið 2000.

„Það yrði enginn hissa þótt Hekla gysi fljótlega. Það gæti líka dregist. Við þekkjum ekki hversu lengi eldfjöllin þola að þenjast án þess að gjósa,“ sagði Páll.

Öræfajökull sýnir merki

Nýr meðlimur í klúbbi þeirra eldfjalla sem eru að þenja sig er Öræfajökull, en í honum er Hvannadalshnjúkur sem er hæsti tindur Íslands. Landmælingar staðfesta þensluna og henni fylgir skjálftavirkni. Gígbarmar öskju Öræfajökuls eru í um 1.800 metra hæð. Hann hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma, 1362 og 1727. Fyrra eldgosið var mikið hamfaragos og lagði sveitina Litla-Hérað í rúst – gerði hana að Öræfum.

Ekki er vitað hvað eldstöð getur þanist lengi áður en hún gýs. Haldi þenslan áfram í fyrrgreindum eldstöðvum má reikna að það endi með eldgosi eða gangainnskoti. Það getur þó dregist lengi að eldur komi upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »