Þrír flokkar stilltu saman strengi

Fulltrúar Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar. Logi Einarsson birti myndina á …
Fulltrúar Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar. Logi Einarsson birti myndina á Facebook í morgun. Ljósmynd / Facebook

„Við teljum að við getum boðið upp á skýran valkost fyrir VG og Framsókn, ef þau hafa áhuga á því,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hittust í morgun. Mbl.is náði tali af Loga Einarssyni, formanni Samfylkingar, fyrir utan þinghúsið laust fyrir klukkan ellefu.

Spurður hvað fulltrúarnir hafi rætt á fundinum segir Logi: „Við vorum að ræða framtíðina, mannréttindi, ný vinnubrögð í stjórnmálum, kynbundið ofbeldi, jafnréttismál, sókn í menntamálum og heilbrigðismál. Við ræddum hvað væri brýnast í íslenskum stjórnmálum að takast á við.“

Hann segir að þótt flokkana þrjá greini á um sumt sé mjög margt sem sameini þá. „Til dæmis meira frjálslyndi,“ segir hann og bætir við: „En við erum líka alveg reiðubúin að mæta sem vel smurð vél inn í málefnalega en grimma stjórnarandstöðu.“

Logi segir að í ljósi samtals Vinstri grænna, Framsóknar- og Sjálfstæðismanna sé framtíðin ekki í hans höndum. Samfylkingin sé hins vegar tilbúin í viðræður aftur, ef til þess kemur. „Ég veit í rauninni hvað ég tel að sé lausn fyrir íslenska jafnaðarmenn. Ég hef hagað mínum samtölum og þeim tilboðum sem ég hef fengið miðað við það. Og ég mun ekki hvika frá því. Við erum ekki opin fyrir öllu – en öllu góðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert