Tvöfalt fleiri armbeygjur með öndunartækni

Birgir Skúlason er alþjóðlegur fríköfunarkennari sem kennir afreksfólki að ná …
Birgir Skúlason er alþjóðlegur fríköfunarkennari sem kennir afreksfólki að ná betri árangri með öndun. Mynd/Magasínið

Þegar Birgir Skúlason var ungur drengur hafði hann ánægju af því að fá lánaða súrefniskúta föður síns í baðkarið til að geta lagt sig. Hann hefur alltaf kunnað vel við sig í vatni og er einn fremsti sérfræðingur landsins í fríköfun, eða köfun án súrefnis.

Tvöfaldaði armbeygjufjöldann með losun CO2 

Birgir nýtir aðferðarfræði fríköfunar til að þjálfa fólk í bættri öndun með súrefnisinntöku. Fólk sem gengur á fjöll, hjólar, syndir, lyftir, eða jafnvel er í kór, getur nýtt sér aðferðirnar til að ná betri árangri.

Það kom berlega í ljós í Magasíninu á K100, er Hvati tvöfaldaði fjölda armbeygja á nokkrum mínútum með því að fara eftir leiðbeiningum Birgis í beinni útsendingu. Í fyrstu umferð voru armbeygjurnar 12, en Hvati tvöfaldaði fjölda armbeygja í 24, með því að minnka magn koltvíoxíðsins (CO2) í blóðinu með djúpri og hraðri öndun. 

25 slög á mínútu á 40 metra dýpi

Birgir fór yfir það hvernig sérstakar æfingar fyrir lungu, þind og millirifjavöðva geta orðið til þess að bæta afköst í öndun og ná meiri stjórn á hverjum vöðva fyrir sig. Þannig sýndi hann það í beinni útsendingu á www.k100.is hvernig hann vinnur með vöðva líkamans til að stýra loftflæðinu. 

„Eftir því sem þindin getur teygst meira, bæði upp og niður, færðu meira af lofti í hverjum andardrætti,“ segir Birgir og hann lýsir því í viðtalinu hvernig hann nær orðið púlsinum niður í 25 slög á mínútu á 40 metra dýpi. En samt með fulla meðvitund. Geri aðrir betur.

Í framhaldinu sýndi hann í beinni hvernig hann dregur loft inn í annað lungað í einu. Fyrst í vinstra lunga, því næst það hægra. Óhætt er að segja að Birgir sé maður andans, en sjálfur myndi hann segja loftið ofmetið, enda getur maðurinn verið án þess lengur en flestar aðrar lífverur. 

Viðtalið má sjá í heild hér, en í seinni hlutanum fyrir neðan eru æfingarnar sýndar í beinni útsendingu.  

Að neðan má sjá Hvata tvöfalda fjölda armbeygja eftir öndunaræfingar Birgis. Einnig lýsir Birgir því hér hvernig hann stýrir loftinu inn í annað lungað í einu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert