„Hennar er valið, til hægri eða vinstri“

Logi Einarsson vill fimm flokka stjórn til vinstri.
Logi Einarsson vill fimm flokka stjórn til vinstri. mbl.is/Hari

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa rætt við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, eftir að forystumenn Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar funduðu í gær um mögulegt samstarf flokkanna þriggja.

„Við getum saman stillt upp möguleikum sem henni og Sigurði [Inga, formanni Framsóknar] standa til boða. Hennar er bara valið, til hægri eða vinstri. Þetta er nú bara ósköp einfalt,“ segir Logi. Hann segist munu sjá til eftir hádegi hvort hann heyri í Katrínu.

Logi segist ekki hafa heyrt í formönnum annarra flokka, en á þó von á að heyra í Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, um helgina.

En telur Logi mögulegt að mynda stjórn til vinstri að því gefnu að Katrín Jakobsdóttir fallist á það?
„Já já. Annaðhvort verðum við þá að taka Flokk fólksins með eða þá að Sigurður komi líka, og hún stendur frammi fyrir því.“

Aðspurður segir Logi næstu skref sín að búa eigin þingflokk undir veturinn og eiga svo í samtölum við þá þingflokka sem ekki eru í viðræðum núna til að skerpa línurnar og stilla upp valkosti til stjórnar. „Sú vinna mun nýtast hvort heldur sem við förum aftur inn í stjórnarmyndunarviðræður eða til að þétta raðirnar í stjórnarandstöðu. Það er líka mikilvægt hlutverk.“

Logi hefur ekki planað neina fundi fyrir helgina. „En ég mun alveg örugglega hafa samband við einhverja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert