Hundruð líka í stórri fjöldagröf

AFP

Fjöldagröf með líkamsleifum að minnsta kosti 400 manns fannst á dögunum í nágrenni bæjarins Hawija í norðurhluta Íraks sem var áður á valdi hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Talið er að þarna séu á ferðinni líkamsleifar fórnarlamba samtakanna.

Fram kemur í frétt AFP að lík sumra fórnarlambanna hafi verið klædd í fangabúninga en önnur borgaralegan klæðnað. Vígamenn Ríkis íslams voru hraktir á brott úr bænum af íröskum hersveitum í október.

Tugir fjöldagrafa með líkamsleifum hundruða fórnarlamba hafa fundist á þeim svæðum sem voru áður á valdi hryðjuverkasamtakanna.

Fjöldagröfin í nágrenni Hawija, sem er ein sú stærsta sem fundist hefur, fannst í kjölfar ábendinga frá íbúum á svæðinu.

Eftirlifandi íbúar hafa lýst hrottafengnum aftökum vígamanna Ríkis íslams á óbreyttum borgurum. Þeir hafi verið dregnir á bifreiðum eða skotnir á almannafæri. Þá hafi lík fórnarlambanna verið limlest og brennd.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert