„Ég vissi mjög lítið um Macchiarini“

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Golli

Birgir Jakobsson, landlæknir og fyrrverandi framkvæmdastjóri Karolinska, segist ekki hafa komið að ráðningu Ítalans Paolos Macchiarinis, þótt hann hafi skrifað undir ráðningarsamninginn. „Þetta er hrein stjórnsýsluleg aðgerð sem sjúkrahússtjóri skrifar undir ásamt rektor KI [Karolinska Institute, innsk.blm] mörgum sinnum í mánuði enda eru 2.500 læknar á Karolinska og ca 300 af þeim með aðalráðningu á KI,“ segir hann í svari við fyrirspurn mbl.is.

Í skýrslu sem rannsóknarnefnd kynnti á dögunum var afhjúpað hvernig Macchiarini beitti blekkingum til að fá að gera aðgerð sem aldrei hafði verið reynd á íslenskum sjúklingi og stóð á vísindalegum brauðfótum. Fram hefur komið að Macchi­ar­ini var ráðinn til Karol­inska sjúkra­húss­ins í Svíþjóð þegar Birg­ir Jak­obs­son, nú land­lækn­ir, var þar for­stjóri. Í ráðningarferlinu hafi komið fram gagnrýni frá öðrum sjúkrahúsum um dómgreindarleysi Macchiarinis. Mbl.is spurði Birgi hver aðkoma hans að ráðningunni hefði verið – og hver sýn hans væri á ráðninguna nú.

Birgir segir að Macchiarini hafi verið ráðinn sem klínískur gestaprófessor við KI. „Sem slíkur á hann rétt á hlutastöðu við Karolinska Universitetssjúkrahúsið samkvæmt samningi á milli Landsþingsins og KI,“ segir hann. Allt ráðningarferlið hafi átt sér stað á KI og að sérstök nefnd KI leggi mat á umsækjendur. „Klíníska ráðningin fer fram á viðkomandi deild, í þessu tilfelli HNE-deild [háls, nef og eyrna, innsk. blm.] sjúkrahússins, ábyrgur er yfirlæknir (klinikchef) deildarinnar.“

Birgir segir að sjúkrahússtjórinn skrifi undir samning þess eðlis að sjúkrahúsið ábyrgist laun viðkomandi prófessors að hluta. Um sé að ræða stjórnsýslulega ákvörðun. „Sjúkrahússtjóri er ekki að öðru leyti viðriðinn ráðningar lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks. Hann ræður náttúrlega sviðsstjóra og samþykkir ráðningu yfirlækna (klinikchef),“ segir hann í svarinu.

Var mótfallinn starfseminni

„Ég vissi mjög lítið um Macchiarini fyrr en hann kom til sjúkrahússins og hafði enga ástæðu til þess að hafa skoðun á ráðningu hans sem slíkri,“ segir Birgir um aðkomu sína og heldur áfram: „Hins vegar fékk ég pata af því að HNE-deildin (og KI-hluti hennar) hygðist byggja upp einhvers konar miðstöð fyrir öndunarsjúkdóma og þar með fá tilbaka líffæraflutninga á hjarta og lungum til Karolinska en þessi starfsemi hafði verið flutt til Lundar og Gautaborgar nokkrum árum áður. Þessu var ég alfarið mótfallinn enda var þetta aldrei á dagskrá stjórnar Karolinska sjúkrahússins. Ég var því mjög mótfallinn þeirri starfsemi sem HNE-deildin vildi byggja upp í kringum Macchiarini og það fannst enginn stuðningur fyrir þessari uppbyggingu í sjúkrahússtjórninni.“

Endanlega ábyrgur

Spurður um ábyrgð sína, í ljósi þess að hann hafi skrifað undir ráðningarsamninginn sem framkvæmdastjóri Karolinska, segir Birgir að sjúkrahússtjóri sé endanlega ábyrgur fyrir öllu sem gerist á sjúkrahúsinu.

„Fagleg ábyrgð er þó mjög skýr samkvæmt sænskum lögum og hún hvílir á yfirlækninum (klinikchefen).“ Hann segir að upprunalegi samningurinn milli sjúkrahússins og KI hafi verið til þriggja ára. Hann hafi neitað því að framlengja samninginn þegar KI hafi viljað það, haustið 2013. Það sé einsdæmi. „Macchiarini var því í framhaldinu einungis ráðinn á KI og fékk því ekki að starfa á sjúkrahúsinu.“

Macchiarini með plastbarka.
Macchiarini með plastbarka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert