HÍ fær 140 m.kr. til rannsókna á virðiskeðju matvæla

Um er að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni 19 stofnana frá 14 …
Um er að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni 19 stofnana frá 14 Evrópulöndum, undir forystu HÍ, auk þess sem tveir háskólar frá Asíu veita verkefninu liðveislu. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Háskóli Íslands hefur hlotið 140 milljóna króna styrk úr rannsóknaáætlun Evrópusambandsins sem kennd er við Horizon 2020. Um er að ræða styrk til rannsókna á virðiskeðjum matvæla, sem nær allt frá vinnslu grunnhráefna til lokaafurða á neytendamarkaði.

Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands segir að heildarstyrkur til verkefnisins nemi um 770 milljónum króna, en um er að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni 19 stofnana frá 14 Evrópulöndum auk þess sem tveir háskólar frá Asíu veita verkefninu liðveislu.

Háskóli Íslands fer með yfirumsjón verkefnisins og munu vísindamenn, sérfræðingar, kennarar og doktorsnemar innan skólans sinna fjölbreyttum rannsóknum sem því tengjast.

Segir í tilkynningunni að Sigurður G. Bogason muni leiða verkefnið, sem kallast VALUMICS og gert er ráð fyrir að því ljúki 2021.

„Markmið VALUMICS-verkefnisins er að þróa aðferðir til að einfalda ákvarðanatöku við framleiðslu á matvælum. Þannig er miðað að því að allir sem taka ákvarðanir geti metið fyrir fram áhrif og afleiðingar ákvarðana sinna og að sjálfbærni verði aukin, gagnsæi og aðlögunarhæfni í virðiskeðjum sem lúta að framleiðslu á matvælum,“ segir í fréttinni.

Sjónum verður beint að virðiskeðjum í framleiðslu matvæla, allt frá vinnslu grunnhráefna til lokaafurða á neytendamarkaði, og verður sérhvert stig sem matvælin ganga í gegnum á þeirri leið skoðað ofan í kjölinn.

Það eru ófáir hlekkir sem mynda keðjuna frá bónda til neytenda og eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á ákvarðanir í þessu flókna ferli. „Það eru líka margvísleg utanaðkomandi öfl sem geta haft áhrif á virðiskeðjur matvæla, ekki síst pólitísk þar sem ákvarðanir geta í ákveðnum tilvikum verið teknar án fullnægjandi yfirsýnar.“

Rannsóknir á virðiskeðjum matvæla eru hingað til að mestu sagðar hafa einskorðast við efnahagslega þætti, en í VALUMICS-verkefninu verði ný aðferðafræði þróuð. Hún feli í sér að nálgast virðiskeðjur matvæla með heildaryfirsýn þar sem gerð verði grein fyrir samspili „þeirra fjölmörgu þátta sem snert geta ákvarðanir innan virðiskeðjanna, svo sem á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála.“

Er með þessu vonast til að hægt verði að skilja og meta hugsanlegar afleiðingar vegna breytinga á rekstrar- og stefnumörkun í víðara samhengi en áður. „Þar með verður t.d. mögulegt að taka tillit til fleiri þátta en áður, þegar meta skal ívilnun stjórnvalda í landbúnaði, fiskeldi eða sjávarútvegi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert