Krafa um að gagnrýnin sé málefnaleg

Eiríkur Tómasson, hæstaréttardómari.
Eiríkur Tómasson, hæstaréttardómari. Rax / Ragnar Axelsson

Eiríkur Tómasson, fyrrverandi hæstaréttardómari sem lét af störfum í september, segir sjálfsagt að dómar Hæstaréttar séu gagnrýndir. „Þá kröfu verður hins vegar að gera, sér í lagi þegar í hlut eiga lögfræðingar, að gagnrýnin sé málefnaleg.“ Þetta kemur fram í viðtali við Eirík á vef Hæstaréttar, en rétturinn tók nýlega upp á því að birta sérstakar fréttir á vef sínum og birti í dag viðtal við Eirík í ljósi þess að hann lét af störfum.

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á Hæstarétt að undanförnu, en það vakti athygli í síðustu viku að Benedikt Bogason hæstaréttardómari höfðaði mál gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, fyrir ummæli þess síðarnefnda í bók sinni Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun. Telur Benedikt að Jón Steinar hafi viðhaft ærumeiðandi ummæli þegar hann sagði dómara, sem dæmdu í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, hafa gerst seka um dómsmorð.

Í viðtalinu er ekki spurt hvern Eiríkur eigi við með orðum sínum, en Jón Steinar hefur verið einn helsti gagnrýnandi Hæstaréttar og málsmeðferðar þar síðan hann lét af starfi dómara.

Jón Steinar gagnrýnir í bók sinni nokkur atriði sem hann átelur í dómsýslu réttarins. Þar á meðal í dómum um umboðssvik og markaðsmisnotkun og segir Jón Steinar að þar hafi dómurinn teygt sig til sakfellingar með breytti lagatúlkun. Þá hefur hann einnig gagnrýnt hvernig staðið sé að því að velja varadómara og sagt að hæstaréttardómarar stjórni með „aðferð þagnarinnar“ þannig að ef rétturinn sé gagnrýndur sé því svarað með þögn og vonast til þess að gagnrýnin deyi út.

Jón Steinar hefur einnig sagt að í raun sé það einn dómari í hverju máli sem dæmi, en að aðrir skrifi svo undir dóminn, nema ef að um sératkvæði sé að ræða. Hefur hann sagt þetta mikið mein á réttinum.

Ekki er þó um að ræða eina dómsmálið þar sem hæstaréttardómari fer í meiðyrðamál. Árið 2012 höfðaði Jón Steinar mál gegn Þorvaldi Gylfasyni prófessor vegna greinar Þorvalds í ritröð Háskólans í München. Í greininni sagði Þorvaldur frá orðrómi þess eðlis að Jón Steinar hefði lagt drög að kæru vegna stjórnlagaþings og síðar stýrt málsmeðferð þess við réttinn. Með þessu hafi hann misnotað vald sitt. Var Þorvaldur sýknaður af kæru Jóns Steinars í Hæstarétti.

Opinber umræða minnir meira á kappræðu en rökræðu

Eiríkur segir í viðtalinu að hér á landi hafi umfjöllun um dómsmál verið of tilviljunarkennd auk þess sem hún hafi stundum verið afar einhliða. Segir hann þar lögmenn eða talsmenn þeirra sem tapi máli oft fara mikinn í fjölmiðlum.

„Ástæðan fyrir þessu er sumpart sú að óháðir sérfræðingar á afmörkuðum sviðum íslensks réttar eru fáir og svo virðist sem sumir þeirra veigri sér við að taka þátt í hinni opinberu umræðu um dómsmál, sem oft minnir meira á kappræðu en rökræðu. Á þessu þyrfti að verða breyting þar sem vönduð umfjöllun um dóma, er birtist sem betur fer af og til í fjölmiðum, er æskileg og veitir dómstólunum nauðsynlegt aðhald með sama hætti og fræðirit og greinar sem birtar eru á hinum fræðilega vettvangi,“ segir Eiríkur á vef Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert