VG samþykkti formlegar viðræður

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í Alþingishúsinu eftir fundinn.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í Alþingishúsinu eftir fundinn. mbl.is/Eggert

Vinstri-græn samþykktu á þingflokksfundi sínum að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

„Meirihluti þingflokksins telur eðlilegt að farið verði í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og látið á það reyna hvort úr því kemur málefnasamningur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, að loknum fundinum.

Níu þingmenn VG af ellefu studdu að farið yrði í formlegar viðræður. Hinir tveir lögðust gegn tillögu Katrínar, eða þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Frá upphafi fundar Vinstri-grænna.
Frá upphafi fundar Vinstri-grænna. mbl.is/Eggert

„Ég hef lagt á það áherslu fyrir þessar kosningar að þær snúist um stóru málin í íslensku samfélagi, uppbyggingu samfélagslegra innviða. Við höfum talað um heilbrigðiskerfið og menntakerfið í talsvert langan tíma, við höfum talað um kjör öryrkja og aldraðra,“ sagði Katrín.

„Ég hef líka sagt að við séum reiðubúin að leiða ríkisstjórn um þessi stóru mál, ásamt auðvitað öðrum þeim áherslumálum sem upp kunna að koma, og að það sé mikilvægt að koma hér á pólitískum stöðugleika. Það eru mín rök fyrir að ég vil láta á þetta reyna, eins og ég vildi láta reyna á fjögurra flokka stjórn sem mitt fyrsta val. Svo verðum við bara að sjá hvað kemur út úr því og hvort það næst saman.“

Katrín ætlar að hafa samband við formenn hinna flokkanna og greina þeim frá niðurstöðunni.

Spurð hvort hún færi fram á að fá umboð frá forseta Íslands til stjórnarmyndunarviðræðna sagði Katrín umboðið sjálft ekki skipta öllu máli á meðan viðræður á milli flokkanna væru í gangi.  

„Ég legg á það áherslu í þessu sem öðru að umræðan um þessi mál sé ekki ofan í skotgröfunum og að fólk reyni að nálgast þetta með málefnalegum hætti. Það finnst mér vera stóra málið og mér finnst vera ákall um það úti í samfélaginu,“ sagði hún og bætti við að viðræður snúist um málefni en ekki persónur og hvernig hægt sé að vinna samfélaginu gagn.

Katrín kvaðst ekki smeyk við að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. „Málefnin ráða för og ef það næst ásættanleg málefnaleg niðurstaða þá getum við unnið með þessum flokkum,“ svaraði hún en nefndi að ef samstarfið verður að veruleika verði blað brotið í sögunni. „Það væru þá líka ákveðin skilaboð um það að þessir flokkar væru reiðubúnir að horfa á stóru línuna samfélaginu til heilla ef niðurstaða fæst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert