Dómari hafnaði kröfu vísindasjóðs

Kennarahúsið við Laufásveg í Reykjavík þar sem Kennarasamband Íslands er …
Kennarahúsið við Laufásveg í Reykjavík þar sem Kennarasamband Íslands er til húsa. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu vísindasjóðs Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum þess efnis að allt bókhald sjóðsins, yfir sex ára tímabil, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslu stjórnarformanns sjóðsins. Úrskurður þess efnis birtist á vef dómstólsins í dag.

Málið er angi af áralangri deilu á milli sjóðsins og Kennarasambands Íslands, sem snýst um fjármuni sjóðsins. Mbl greindi frá því 2015 að stjórn sjóðsins hefði kært Kennarasambandið vegna meðferðar á fjármunum sjóðsins, en í þeirri kæru kom fram að peningarnir hafi verið notaðir á veitingahúsi, í áfengiskaup og gjafir.

Frétt mbl.is: Deilur innan KÍ enda hjá saksóknara 

Vísindasjóðurinn krafðist þess að fá bókhald sjóðsins og öll fylgiskjöl á árunum 2011 til 2016 með beinni aðfarargerð úr vörslu stjórnarformannsins. Þá var þess krafist að tölva í eigu sjóðsins, að meðtöldum rafrænum gögnum sem í henni eru, yrðu gerð upptæk. Loks var þess krafist að varnaraðili greiddi málskostnað.

Fram kemur í dómnum að ekki sé ágreiningur um að stjórnarformaðurinn hafi gögnin undir höndum en hann hefur hafnað því að afhenda gögnin á þeim grundvelli að sjóðurinn sé ekki réttur aðili til að hafa uppi þessa kröfu. Fram kemur að stjórnarformaðurinn hafi verið kjörinn í stjórn sjóðsins í mars 2014, til þriggja ára. Kjörtímabilið hafi svo verið lengt í fjögur ár, til 2018, vegna breyttra laga Kennarasambands Íslands en hann hlaut kosningu sem formaður 2. júní 2015.

Stjórnarformaðurinn vísaði til þess í sínum málflutningi að kjör nýrrar stjórnar, fyrir ári, hafi verið ólögmætt. Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki liggi fyrir hvort fundurinn hafi verið lögmætur. Því sé réttur sjóðsins til þess að krefjast gagnanna „ekki svo skýr og ótvíræður að krafa hans um beina aðför nái fram að ganga,“ segir í úrskurðinum. Kröfu sjóðsins er því hafnað og samkvæmt úrskurðinum situr hann einnig uppi með málskostnað, 350 þúsund krónur.

Uppfært: KÍ hefur sent frá sér áréttingu vegna fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert