Dómstjóri má dæma í Stím-málinu

Frá aðalmeðferð Stím-málsisn árið 2015. Það verður endurtekið í héraði …
Frá aðalmeðferð Stím-málsisn árið 2015. Það verður endurtekið í héraði í þessari viku og þeirri næstu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingimundur Einarsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, þarf ekki að víkja sæti sem meðdómari þegar Stím-málið svokallaða verður tekið fyrir í héraðsdómi í annað skipti nú á fimmtudaginn. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þess efnis að Ingimundur væri ekki vanhæfur til að dæma í málinu þrátt fyrir að hann hefði tapað um 650 þúsund krónum við fall bankans.

Í málinu er ákært fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar Glitnis til félagsins Stím á árunum 2007 og 2008. Voru lánin notuð til kaupa á hluta­bréf­um í Glitni og FL Group, en FL var á þess­um tíma stærsti hlut­hafi Glitn­is. Héraðsdóm­ur dæmdi alla ákærðu í fang­elsi í des­em­ber 2015 og var um að ræða 18 mánaða til 5 ára fang­elsi. Hæstirétt­ur ómerkti dóm­inn hins veg­ar í sum­ar og vísaði hon­um til héraðsdóms að nýju.

Sagði í dómi Hæsta­rétt­ar að Sig­ríði Hjaltested, dóm­ara í mál­inu, hefði brostið hæfi til að dæma í mál­inu. Sig­ríður sagði sig frá öðru hrun­máli sem Hæstirétt­ur seg­ir hliðstætt þessu máli. Það gerði hún vegna tengsla þess við fyrr­ver­andi eig­in­mann sinn og barns­föður.

Áður hafði verið tekist á um hæfi sérfróðs meðdómara í málinu, Hrefnu Sigríðar Briem, en bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu hana ekki skorta hæfi.

Ákærðu í málinu töldu að draga mætti óhlutdrægni Ingimundar í efa þar sem hann hefði átt fjárhagslega hagsmuni undir hjá Glitni. Benda þeir á að hann hafi átt hlutabréf í Glitni sem og hinum viðskiptabönkunum tveimur sem féllu árið 2008.

Vísað er til þess að verðmæti hluta Ingimundar í bönkunum þremur hafi verið samtals 4,2 milljónir um miðjan nóvember 2007. Hann hafi síðar selt hluti sína í Kaupþingi og Landsbankanum, en hann hafi tapað um 660 þúsund krónum á falli Glitnis. Samtals hafi hann orðið fyrir gengistapi af hlutabréfunum á þessu tímabili upp á 2 milljónir.

„Þetta tap sé verulegt sé það metið t.a.m. með hliðsjón af launum dómara,“ segir í röksemdum verjenda í málinu. Þá er sérstaklega vísað til þess að full ástæða sé til þess að horfa til þess að félög sem starfi á sama markaði séu rekin með samsvarandi hætti og svipuðum aðferðum og því þurfi að horfa til sameiginlegs áhættueðlis þeirra allra við mat á umfangi áhættu dómara og þar með heildarhagsmuna hans í öllum félögunum.

Verjendur í málinu benda einnig á að þótt dómstjórinn hafi átt að tilkynna um fjárhagshagsmuni sína hafi hann ekki gert það fyrr en með tilkynningu 10. mars 2017, eða liðlega 10 árum frá því að honum hafi borið að senda tilkynninguna. „Slíkur dráttur hljóti í öllu tilliti að teljast verulegur. Tilkynningarskyldan og ræksla hennar hafi að markmiði að varðveita traust og trúverðugleika dómskerfisins og tiltrú aðila á óhlutdrægni dómara. Hafi dómari vanrækt að tilkynna fjárhagshagsmuni megi álíta slíkt sérstaka ástæðu til að draga óhlutdrægni viðkomandi dómara í efa,“ segir í röksemdunum.

Hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur tóku hins vegar undir þá skoðun verjanda og er Ingimundur því hæfur til að dæma málið. Aðalmeðferð þess hefst á fimmtudaginn og mun standa í vikutíma.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is