Hálka á vegum um allt land

Suðvestanátt, 8-18 m/s og skúrir eða él, segir í veðurspá …
Suðvestanátt, 8-18 m/s og skúrir eða él, segir í veðurspá dagsins. Veðurstofa Íslands

Hált er í öllum landshlutum og víða snjór á þjóðvegum og sumstaðar krapi. Spáð er hvassri suðvestanátt i dag og 0 til 5 stiga hita. Lægir heldur í kvöld og kólnar.

Á Suður- og Vesturlandi er hálka, hálkublettir, snjóþekja og sumstaðar krapi og einnig éljagangur. Það er hálka og snjóþekja á flestum vegum á Vestfjörðum og víða éljagangur. Þæfingsfærð er á Þröskuldum og eins norður í Árneshrepp. Þungfært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja. Hálka er á flestum vegum á Austurlandi og eins með suðausturströndinni, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Spáin fyrir næstu daga samkvæmt vef Veðurstofu Íslands

Suðvestanátt, 8-18 m/s og skúrir eða él, hvassast syðst, en léttskýjað að mestu A-lands. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig. Vestlægari síðdegis, lægir V-til um kvöldið og kólnar heldur.

Á miðvikudag:

Suðlæg átt, 5-10 m/s og dálítil él S- og V-lands, en slydda eða snjókoma þar síðdegis. Annars skýjað með köflum og úrkomulaust að kalla. Hiti 0 til 5 stig syðst og vestast, en frost víða 1 til 6 stig annars staðar. 

Á fimmtudag:
Vestlæg átt, 5-13 m/s og snjókoma eða slydda A-lands, hvassast á annesjum, annars él, en úrkomulítið SV-lands. Víða frostlaust við ströndina, en annars vægt frost. 

Á föstudag:
Norðan og norðvestan 8-18, hvassast við A-ströndina. Víða snjókoma eða él, en bjart að mestu á S- og V-landi. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag:
Minnkandi norðlæg átt og dálítil él N- og A-til, en annars léttskýjað. Frost víða 0 til 7 stig, kaldast inn til landsins. 

Á sunnudag og mánudag:
Útlit fyrir austlægar áttir með éljum á víð og dreif. Fremur kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert