Líklega fyrsta málið sinnar tegundar

Freyja Haraldsdóttir var varaþingmaður Bjartrar framtíðar 2013-2016.
Freyja Haraldsdóttir var varaþingmaður Bjartrar framtíðar 2013-2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í dag verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu. Freyja, sem er hreyfihömluð, telur sig ekki hafa notið sömu málsmeðferðar og ófatlaðir við umsókn sína um að gerast fósturforeldri og er málið höfðað á þeim forsendum. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður Freyju, segist ekki vita til þess að sambærilegt mál hafi verið fyrir dómstólum hér á landi.

Mbl.is greindi frá málshöfðun Freyju fyrir tæpum mánuði og í þeirri frétt kom fram að henni hefði verið neitað um að sækja námskeiðið Foster Pride, sem haldið er á vegum Barnaverndarstofu og er ætlað áhugasömum fósturforeldrum, en samkvæmt reglugerð um fóstur ber umsækjendum um að taka barn í fóstur að sækja slíkt námskeið áður en leyfi er veitt. Þar kom einnig fram að fyrsta skrefið í að sækja um að verða fósturforeldri sé að leggja inn umsókn til Barnaverndarstofu og annað skrefið að óska eftir umsögn hjá fjölskylduráði viðkomandi sveitarfélags. Freyja gerði það og fékk jákvæða umsögn frá fjölskylduráði Garðabæjar. Næst lagði hún fram beiðni til Barnaverndarstofu um setu á áðurnefndu námskeiði en þá tók stofan þá ákvörðun að úrskurða í máli hennar og var niðurstaðan sú að hafna umsókninni. Þessari synjun vísaði Freyja til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti hana og í kjölfarið höfðaði hún mál gegn Barnaverndarstofu.

Gæti verið prófmál

Freyja var ekki tilbúin að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, en Sigrún segir kjarna málsins vera þann að Freyja hafi ekki fengið sömu málsmeðferð og aðrir umsækjendur. „Umsókn hennar um að gerast fósturforeldri var hafnað án nægilegs rökstuðnings og hæfni hennar var einfaldlega aldrei metin,“ segir Sigrún Ingibjörg. „Það er það sem málið snýst um.“

Hún segist ekki vita til þess að áþekkt mál, þar sem fatlaður einstaklingur leitar réttinda sinna með þessum hætti, hafi verið höfðað hér á landi. Spurð hvort um sé að ræða prófmál segir hún að það verði að koma í ljós þegar niðurstaðan liggi fyrir.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að það hafi margoft gerst áður að umsækjendum um að taka barn í fóstur hafi verið hafnað á sama stigi umsóknarferlisins og Freyja fékk höfnun. „Skilyrðin fyrir því að fá að taka barn í fóstur eru tvíþætt. Annars vegar felast þau í ýmsum hlutlægum atriðum þar sem leggja þarf fram alls kyns gögn eins og t.d. heilbrigðis- og sakavottorð. Hinn þáttur málsins lýtur að mati á hæfni viðkomandi, en það mat fer fram á Foster Pride-námskeiðinu. Í þessu tiltekna máli þótti ekki ástæða til að taka málið lengra þar sem fyrra atriðinu var ekki fullnægt,“ segir Bragi.

Sérfræðingar kallaðir til

Hann segir umsókn Freyju hafa farið „sinn eðlilega farveg“ í gegnum stofnunina. „Ég get fullyrt að það var sérlega vel vandað til við þá vinnu og við kölluðum m.a. eftir sérfræðiálitum. Við berum mikla virðingu fyrir Freyju eins og öllum öðrum sem lýsa áhuga á að gerast fósturforeldrar,“ segir Bragi. Hann segir að áður hafi líkamlega fatlaður einstaklingur sótt um að gerast fósturforeldri. „En þetta er alltaf mat í hverju einstöku tilviki og í tilviki Freyju var matið með þessum hætti.“

Spurður hvort Barnaverndarstofu hafi áður verið stefnt vegna neitunar um að gerast fósturforeldri segir hann svo vera. „Eftir því sem ég best veit hefur það gerst einu sinni. Það var fyrir 2-3 árum, það mál var talsvert öðruvísi vaxið og þar var ákvörðun Barnaverndarstofu staðfest.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert