Biskup telur prest mögulega hafa brotið trúnað

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Nokkuð langt hlé þurfti að gera á fyrirspurnatíma kirkjuþings fyrr í dag, þar sem séra Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, fór ítrekað með formála að fyrirspurnum sínum sem höfðu ekki verið lagðir fyrir svarendur skriflega, eins og reglur kirkjuþingsins kveða á um.

„Fyrirspyrjandi þarf að halda sig við þá fyrirspurn sem búið að skila skriflega,“ sagði fundarforseti, áður en hlé var gert á fundinum, sem varði í um tuttugu mínútur.

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, fékk orðið undir lok fundar og vandaði séra Geir ekki sérstaklega kveðjurnar, en fyrr á fundinum hafði hún sagt að sóknarpresturinn væri að misnota fyrirspurnatímann, er hann fór með ókynntan formála að fyrirspurn um meint kynferðisbrotamál séra Ólafs Jóhannssonar í Grensáskirkju.

Segir biskup að séra Geir hafi mögulega brotið trúnað er hann las upp tölvupóst sem hún sendi á séra Ólaf, þar sem hún óskaði eftir því að hann færi í launað leyfi er málið kom upp.

Bar kollega sína sökum án þess að þeir gætu svarað

Biskup sagði að þrjú atriði hefðu setið eftir, eftir þau skipti er séra Geir flutti langa formála að fyrirspurnum sínum. Í fyrsta lagi telur biskup að Geir hafi brotið þingsköp með því að leggja fyrirspurnir sínar ekki fram skriflega, eins og kveðið er á um í reglum kirkjuþings.

Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti.
Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Síðan velti ég því fyrir mér, að ég tel að fyrirspyrjandi hafi borið kollega sína sökum í ræðustól kirkjuþingsins, þar sem þeir eiga ekki kost að svara fyrir sig vegna þess að þeir sitja ekki þetta þing,“ sagði biskup og vísaði þar til ummæla séra Geirs um meinta vanhæfni kjörnefndarmanna í kjöri sóknarprests við Dómkirkjuna í Reykjavík.

„Í þriðja lagi velti ég því fyrir mér hvort trúnaður hafi verið brotinn, þegar lesið var upp úr tölvupóstum sem á milli manna fóru, án leyfis þess sem skrifaði og þess sem tók við,“ sagði Agnes biskup og vísar þar til þess að séra Geir las upp úr tölvupóstsamskiptum biskups við séra Ólaf Jóhannsson.

„Það er nýfallinn dómur Persónuverndar um slíkt mál,“ sagði biskup og virðist því velta því fyrir sér hvort upplestur séra Geirs á samskiptunum standist lög.


Upptöku af fyrirspurnatímanum í heild sinni má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert