Skerðing á þjónustu netbanka um helgina

Vegna innleiðingar á nýju tölvukerfi hjá Landsbankanum 20. nóvember þarf að skerða þjónustu í netbönkum Landsbankans helgina 18.-19. nóvember. Þjónusta í netbönkum og útibúum verður einnig skert fram eftir degi mánudaginn 20. nóvember. Þetta  kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

„Þessa daga verður hægt að millifæra í netbankanum en upphæðir sem færðar eru á milli bankareikninga verða ekki sýnilegar á reikningsyfirlitum og ráðstöfun þeirra verður takmörkuð. Áfram verður hægt að greiða með debet- og kreditkortum en þó getur orðið tímabundin truflun á notkun debetkorta sunnudaginn 19. nóvember.

Þurfi viðskiptavinir að ljúka mikilvægum bankaerindum fyrir mánudaginn 20. nóvember er mælt með að þeir sinni þeim fyrir helgina 18.-19. nóvember til að forðast óþægindi,“ segir í fréttatilkynningu.

Endurnýjun á innlána- og greiðslukerfum Reiknistofu bankanna (RB) og Landsbankans er eitt stærsta hugbúnaðarverkefni sem RB og bankinn hafa ráðist í, segir enn fremur í tilkynningu bankans.

„Nýja kerfið leysir af hólmi mörg eldri tölvukerfi en hið elsta þeirra er um 40 ára gamalt. Í stað eldri kerfa verður tekið í notkun nýtt kerfi frá hugbúnaðarfyrirtækinu Sopra Banking Software. Nýja kerfið einfaldar og uppfærir tækniumhverfi bankans og er ódýrara í rekstri og sveigjanlegra en eldri kerfi. Með Sopra-kerfinu aukast einnig möguleikar á samnýtingu hugbúnaðarlausna í fjármálakerfinu.“

Nánar um þjónustu í netbankanum 18.-20. nóvember

  • Hægt verður að millifæra á milli reikninga í netbanka Landsbankans og úr netbönkum annarra banka/sparisjóða en reikningsyfirlit í netbankanum uppfærast ekki. Þar sem reikningsyfirlit uppfærast ekki verður hvorki hægt að millifæra upphæðir sem eru lagðar inn þessa helgi yfir á aðra reikninga né taka þær út í hraðbönkum. Viðskiptavinir geta á hinn bóginn nýtt upphæðir sem millifærðar eru á reikninga þeirra með því að greiða með debetkortum.
  • Ekki verður hægt að greiða inn á kreditkort frá kl. 21.00 föstudaginn 17. nóvember þar til síðdegis á sunnudag.Ekki verður hægt að stofna, breyta eða eyða reikningum í netbanka.
  • Hægt verður að greiða ógreidda reikninga. Reikningsyfirlit uppfærast hins vegar ekki og því sést ekki á yfirlitinu að heildarfjárhæð til ráðstöfunar hafi lækkað. Ekki verður hægt að stofna, breyta eða fella niður yfirdráttarheimildir.
  • Ekki verður hægt að stofna, breyta eða eyða beingreiðslusamningum.
  • Ekki verður hægt að panta úttekt á Vaxtareikningi 30.
  • Nettunarþjónusta í netbanka fyrirtækja verður ekki virk.
  • Þjónusta í útibúum og þjónustuveri bankans verður skert með sama hætti fram eftir degi mánudaginn 20. nóvember.

Tímabundnar truflanir eða þjónustuskerðing sunnudaginn 19. nóvember

  • Tímabundnar truflanir geta orðið á notkun debetkorta.
  • Ekki verður truflun á notkun kreditkorta, Aukakrónukorta, inneignarkorta fyrirtækja, bensínkorta eða gjafakorta.
  • Truflanir gætu orðið á virkni hraðbanka.
  • Lokað verður fyrir farsímabankann, netbanka einstaklinga, netbanka fyrirtækja og B2B-þjónustu fyrirtækja í 2-4 klst.

Þjónustuver opið helgina 18.-19. nóvember

Aðstoð og nánari upplýsingar er hægt að fá með því að hringja í þjónustuver Landsbankans, s. 410 4000, eða senda tölvupóst í netfangið info@landsbankinn.is.

Þjónustuverið verður opið frá kl. 11.00-18.00 helgina 18.-19. nóvember og frá kl. 9.00-21.00 mánudaginn 20. nóvember og þriðjudaginn 21. nóvember.

Vegna innleiðingar á nýju tölvukerfi 20. nóvember nk. þarf að skerða þjónustu í netbönkum Landsbankans helgina 18.-19. nóvember. Þjónusta í netbönkum og útibúum verður einnig skert fram eftir degi mánudaginn 20. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert