Þriðjungsfækkun umsókna um vernd

Útlendingastofnun annast málefni þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á …
Útlendingastofnun annast málefni þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umsækjendum um alþjóðlega vernd fækkaði um þriðjung á milli mánaða og eru flestir umsækjendur frá Georgíu og Albaníu. 63% umsækjenda um vernd á Íslandi í september koma frá ríkjum sem eru á lista yfir örugg upprunaríki. Þetta kemur fram í tölum Útlendingastofnunar fyrir septembermánuð. Fyrstu 12 daga októbermánaðar sóttu 35 um hæli á Íslandi.

Útlendingastofnun

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í september voru 104. Eru þetta þriðjungi færri umsóknir en í ágústmánuði (154) og 40% færri en í septembermánuði á síðasta ári (176). Heildarfjöldi umsókna á fyrstu níu mánuðum ársins var 883, tæpum 60% fleiri en á sama tímabili árið 2016 (561). 

Útlendingastofnun

Umsækjendur í september voru af 27 þjóðernum og komu flestir frá Georgíu (39) og Albaníu (21). Tólf Írakar sóttu um hæli á Íslandi í september, 3 Afganar og tveir Sýrlendingar. Einn Bandaríkjamaður, Kínverji, Hollendingur og Þjóðverji eru meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi í september. 81% umsækjenda voru karlkyns og 19% kvenkyns, segir í frétt á vef Útlendingastofnunar frá því í gær.

Útlendingastofnun

52 drógu umsókn um vernd til baka

Niðurstaða fékkst í 130 mál í septembermánuði. 49 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar og þar af voru 27 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð fyrir tilhæfulausar umsóknir. 26 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrjú mál voru afgreidd með synjun á grundvelli þess að umsækjendurnir höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki og 52 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.

43 þeirra 49 mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun og sex með ákvörðun um veitingu verndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Flestir þeirra sem var synjað um vernd komu frá Georgíu (15) og Kósóvó (13) en flestir þeirra sem var veitt vernd komu frá Írak (4).

14 umsóknir í forgangsmeðferð

Meðalmálsmeðferðartími allra umsókna um vernd sem afgreiddar voru með ákvörðun á þriðja ársfjórðungi 2017 var 127 dagar. Að meðaltali tók 103 daga að afgreiða umsókn á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar (55 mál), 190 daga í hefðbundinni efnismeðferð (74 mál) og 41 dag í forgangsmeðferð fyrir tilhæfulausar umsóknir (39 mál).

Útlendingastofnun

Um miðjan september var verklagi við afgreiðslu tilhæfulausra umsókna breytt. Breytingarnar voru gerðar á grundvelli reglugerðarbreytingar frá 30. ágúst sem meðal annars heimilaði ákvarðanatöku án samhliða rökstuðnings í málum sem sæta forgangsmeðferð. 14 umsóknir voru teknar til forgangsmeðferðar á grundvelli nýja verklagsins í september og var þeim lokið á þremur dögum að jafnaði.

Útlendingastofnun

Um 580 einstaklingar nutu þjónustu í verndarkerfinu á Íslandi um síðastliðin mánaðamót, þar af voru um 260 manns í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu um 320 einstaklingum þjónustu í búsetuúrræðum stofnunarinnar.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra flutti 46 einstaklinga úr landi í september. 38 einstaklingar yfirgáfu landið sjálfviljugir með stuðningi Útlendingastofnunar í mánuðinum og þrír með stuðningi Alþjóðafólksflutningastofnunarinnar (IOM).

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert