Þriðjungur kvenna í Zaatari giftar á barnsaldri

Ein birtingarmynd kynbundins ofbeldis í Zaatari-búðunum er sú að barnungar …
Ein birtingarmynd kynbundins ofbeldis í Zaatari-búðunum er sú að barnungar stúlkur eru þvingaðar í hjónabönd og hefur um þriðjungur kvennanna verið giftur barnungur, sem hefur áhrif á bæði heilsu þeirra og framtíð. Ljósmynd/UN Women

Konur og börn eru um 80% íbúa í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu og eiga þar erfitt uppdráttar. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

UN Women á Íslandi hefur hrint af stað neyðarsöfnun fyrir konur og stúlkur frá Sýrlandi sem dvelja í flóttamannabúðunum að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari-búðunum eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um 80% íbúa Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegu áreiti og kynbundnu ofbeldi. Ein birtingarmynd kynbundins ofbeldis í Zaatari-búðunum er sú að barnungar stúlkur eru þvingaðar í hjónabönd og hefur um þriðjungur kvennanna verið giftur barnungur, sem hefur áhrif á bæði heilsu þeirra og framtíð.

Barnmargir foreldrar í sárafátækt sækjast eftir heimanmundi og gefa barnungar dætur sínar í hjónaband. Fæstar giftar stúlkur fá tækifæri til að ljúka námi og öðlast þar með ekki tækifæri til að vinna sig út úr fátæktinni.

Til að sporna við ofbeldinu, aukningu barnahjónabanda og fátækt í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu. Þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi.

UN Women hvetur alla til að senda SMS-ið KONUR í 1900 (1490 kr.) og veita konum á flótta atvinnu, öruggt skjól og nýtt upphaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert