65 fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins

mbl.is/Hari

65 nemendur í grunnskólum Reykjavíkur tóku í dag við Íslenskuverðlaunum unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, er verndari Íslenskuverðlauna ungafólksins og afhenti hún þau við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal Hörpu. Meðal verðlaunahafa eru ungir lestrarhestar, framúrskarandi upplesarar, tvítyngdir nemendur sem náð hafa góðum tökum á íslensku á skömmum tíma, sagnahöfundar og ljóðskáld.

mbl.is/Hari


Þetta er í ellefta sinn sem Íslenskuverðlaunin eru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Allir grunnskólar í borginni geta tilnefnt nemendur eða nemendahópa, einn á hverju skólastigi.

mbl.is/Hari

Verðlaunin voru að þessu sinni viðurkenningarskjal undirritað af frú Vigdísi, verndara verðlaunanna, og bókin Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar. Verðlaunahafar fá einnig boð frá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Vigdísarstofnun í móttöku í Veröld – húsi Vigdísar, Brynjólfsgötu 1, þriðjudaginn 5. desember kl. 17. Andri Snær Magnason, rithöfundur og stjórnarformaður Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO, spjallar við gesti um orðlistina. Einnig verður leiðsögn um sýninguna Samtal sem fjallar um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur.

Við verðlaunaathöfnina í Hörpu í dag voru mættir um 500 boðsgestir, verðlaunahafar, fjölskyldur þeirra, skólastjórar o.fl.

mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert