Betri svefn hlaut Hagnýtingarverðlaun

Betri svefn, netmeðferð við svefnleysi varð hlutskörpust í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru í Hátíðasal skólans í dag. Þrjú önnur verkefni voru einnig verðlaunuð við þetta tilefni og nemur samanlögð upphæð verðlaunafjár fjórum milljónum króna.

Betri svefn hlaut tvær milljónir króna í verðlaun fyrir verkefnið: Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi meðal skjólstæðinga heilsugæslunnar – árangur meðferðar og áhrif á svefnlyfjavísanir. Erla Björnsdóttir, nýdoktor við Læknadeild, leiðir verkefnið en að því hafa einnig unnið Tinna Karen Árnadóttir, læknir á heilsugæslu, Hálfdan Steinþórsson, framkvæmdastjóri Betri svefns, og Petra Lind Sigurðardóttir sálfræðingur.

Verkefnið hverfist í kringum vefsíðuna Betri svefn sem þegar hefur verið komið á fót. Hún hefur að geyma bæði fræðsluefni um m.a. svefn og svefnvenjur og fjarmeðferð við svefnleysi, þá fyrstu sinnar tegundar á Norðurlöndum. Næsta skref aðstandenda er að starfa með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þannig að skjólstæðingum hennar verði vísað á þessa meðferð og jafnframt að rannsaka hvort slíkt aðgengi að lyfjalausri meðferð geti dregið úr ávísun lyfja en um leið aukið lífsgæði þeirra sem við vandann hafa glímt.

Önnur verðlaun, að upphæð ein milljón króna, komu í hlut verkefnisins Skynbelti, sem snýst um að hanna belti sem ætlað er að hjálpa þeim sem hafa ekki skynfæri á borð við sjón eða heyrn.

Tvö verkefni fengu að þessu sinni þriðju verðlaun og aðstandendur þeirra hvorir um sig 500 þúsund krónur í verðlauna. Annað þeirra nefnist Næring móður og barns en hitt TARASÓL - þróun sólarverjandi efna úr þörungum.

Verðlaunin voru nú afhent í  20. sinn en markmið þeirra er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir frá starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands og tengdum stofnunum. Tillögur hafa borist í samkeppnina frá fólki tengdu hinum fjölbreyttu fræðasviðum skólans undanfarin ár og engin undantekning var á því í ár.

Tuttugu og þrjár umsóknir voru sendar inn í keppnina að þessu sinni og kom það í hlut sérstakrar dómnefndar að fara yfir þær. Við matið horfði dómnefndin meðal annars til nýnæmis og frumleika, hversu fljótt væri unnt að hagnýta hugmyndirnar, hvort hagnýtingin styddi við stefnu og starfsemi Háskóla Íslands, hver ávinningur samfélagsins væri af hugmyndinni og hvernig verðlaunafé myndi nýtast við hagnýtingu verkefnisins.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, fyrirtækisins Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en síðastnefndu aðilarnir leggja sigurvegurum m.a. til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert