Brennisteinslykt fannst við Kvíá

Mynd/Árni Tryggvason

Í kvöld barst Veðurstofunni tilkynning um brennisteinslykt við Kvíá sem kemur undan Kvíárjökli í suðausturhluta Öræfajökuls.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að óvenjulegt sé að brennisteinslykt finnist á þessu svæði, en lyktin endurspegli líklega jarðhitavatn sem komi undan Öræfajökli.

Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni undanfarna 10 daga, en hún er þó yfir meðallagi sé miðað við virkni undanfarin ár.

Starfsfólk Veðurstofunnar mun taka sýni og gera frekari mælingar á svæðinu við fyrsta tækifæri.

mbl.is