Mikill viðbúnaður á flugvellinum

Keflavíkurflugvöllur
Keflavíkurflugvöllur Ljósmynd/Isavia

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli eftir að tilkynnt var um farþegaflugvél sem ætti í erfiðleikum. Flugvélin er lent heilu og höldnu og sakaði engan.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var allt tiltækt lið kallað út en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu. Talsverðar tafir urðu á millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll vegna málsins. - uppfært klukkan 6:55 - millilandaflug er komið í eðlilegt horf að nýju.

RÚV greinir frá því að flugstjóri flugvélarinnar hafi tilkynnt bilun í hjólabúnaði vélarinnar.

Að sögn varðstjóra í Brunavörnum Suðurnesja voru viðbragðsaðilar kallaðir út klukkan 05:53 og neyðarstigi lýst yfir en sex til sjö farþegar voru um borð í flugvélinni. Flugvélin lenti klukkan 06:12 og var dregin inn í flugskýli þannig að hún tefur ekki lengur flugumferð um völlinn.

Brunavarnir Suðurnesja sendu alla sjúkrabíla sína á vettvang fyrir utan tvo sem voru að sinna öðrum útköllum; umferðarslysi í umdæminu og að sækja sjúkling á Keflavíkurflugvöll sem var um borð í farþegaþotu sem var að lenda á flugvellinum. Neyðarstigi var síðan aflýst klukkan 06:39.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert