Sér eftir að hafa tekið að sér starfið

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, í dómsalnum.
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, í dómsalnum. mbl.is/Eggert

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, sagðist í yfirlýsingu sem hann las upp við skýrslutöku í Stím-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur vonast til að dómarar noti tækifærið við endurupptöku málsins og taki til baka ákvörðun sína um að dæma hann í fangelsi.

Hann vitnaði í viðtal sem var tekið við Eirík Tómasson, fyrrverandi hæstaréttardómara, þar sem hann talaði um að dómarar skuli ávallt vera reiðubúnir til að skipta um skoðun.

„Ég treysti því að þið sjáið þetta tækifæri til að taka ykkar ákvörðun til baka,“ sagði hann og bætti við að slík tækifæri gefist ekki oft.

Lárus var dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2015. Hann hafði verið ákærður fyr­ir umboðssvik með því að hafa farið út fyr­ir heim­ild­ir sín­ar til lán­veit­inga hjá Glitni banka þegar hann beitti sér fyr­ir því að fé­lag­ið FS37, sem síðar varð Stim, fengi um 20 millj­arða króna lán frá bank­an­um með veði í öllu hluta­fé fé­lags­ins og bréf­um í FL Group sem láns­féð var notað til að kaupa. Láns­féð var einnig notað til að kaupa bréf í Glitni.

Starfið fylgt honum í tíu ár

Hann sagði vilja taka til baka nokkrar ákvarðanir í lífi sínu en ákvörðunin sem hann tók fyrir nákvæmlega tíu árum upp á dag hafi verið rétt. Þar átti hann við það lánveitinguna til FS37 frá Glitni. 

„Ákvörðunin sem ég myndi vilja taka aftur er að taka að mér starf forstjóra Glitnis,“ sagði Lárus. Hann nefndi að hann hefði aðeins starfað þar í stuttan tíma en starfið hafi engu að síður fylgt sér í tíu ár. Hann hafi sætt hlerunum, húsleit, margra vikna yfirheyrslum og ákærum. Einnig nefndi hann að einu máli gegn honum væri endanlega lokið, Vafningsmálinu, og að öllum líkindum muni málarekstur halda áfram í nokkur ár í viðbót.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert

Ítrekaði sakleysi sitt

Lárus sagðist hafa reynt að draga sinn lærdóm af því sem gerðist en með óvissunni sem hafi verið uppi í mörg ár hafi honum og fjölskyldu hans þegar verið gerð refsing án dóms.

Í máli Lárusar kom fram að miklar kröfur hafi verið gerðar til hans sem forstjóra Glitnis en allar aðstæður hafi gjörbreyst þegar aðstæður breyttust á mörkuðum í flestum löndum. „Ég og þeir sem störfuðu mér við hlið reyndum eftir bestu getu að bregðast við þessum breyttu aðstæðum.“

Hann sagði að ásetningur sinn hafi verið góður og að hann hafi aldrei haft persónulegan ávinning af neinum ákvörðunum sem hann tók fyrir hönd bankans. Aldrei hafi hann heyrt minnst á hugtakið umboðssvik á öllum þeim fundum sem hann sat.

Lárus hvatti dómara til að leysa hlutlaust úr málinu og setja ýmislegt til hliðar, meðal annars „þann mikla áróður og upplognu ásakanir sem hafa dunið á þeim“.

Bætti hann við að embætti sérstaks saksóknara hafi farið fram með offorsi í málinu.

Hann ítrekaði sakleysi sitt og sagði bankann hafa verið betur settan eftir viðskiptin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert