Snorri í Betel fær 6,5 milljónir í bætur

Snorri Óskarsson.
Snorri Óskarsson. mbl.is/Jóhannes.tv

Snorra Óskarssyni, sem er oft kenndur við söfnuðinn Betel, voru í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær dæmdar 6,5 milljónir í bætur frá Akureyrarbæ ásamt vöxtum. Bæturnar eru dæmdar vegna ólögmætrar uppsagnar en Snorri krafðist 12 milljóna.

Auk bótanna var áminning, sem skólastjóri Brekkuskóla veitti Snorra í febrúar 2012, felld úr gildi.

„Ég fór fram á það að þeir borguðu mér töpuð laun í fimm ár og ég fæ rúmlega eitt ár,“ segir Snorri í samtali við mbl.is en hann var ekki fullkomlega sáttur með niðurstöðu dómara þó að hann segi að niðurstaðan gæti verið verri:

„Það kemur meira út úr þessu en Akureyrarbær bauð mér. Ég hef haft þann sigur á öllum vígstöðvum. Þannig er þetta sigur, ef maður vill líta svo á.“

Snorri var grunn­skóla­kenn­ari, en var sagt upp störf­um hjá Ak­ur­eyr­ar­bæ vegna um­mæla um sam­kyn­hneigð á á bloggsíðu sinni. Bæði héraðsdóm­ur og Hæstirétt­ur hafa dæmt upp­sögn­ina ólög­mæta.

Snorri hefur ekki snúið aftur til kennslu en hann hefur sótt um á nokkrum stöðum en ávallt verið neitað. „Ég hef sótt um kennslu bæði í Þelamörk og Hrafnagili en verið hafnað. Ég hef sótt um kennslu í skólum Akureyrar og verið hafnað þar. Bæjarfélagið Akureyri vill ekki hafa mig í neinum skóla,“ segir Snorri en hann veit ekki hver ástæða þess er að hann fær ekki vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert